Fara í efni
Fréttir

Tilvalið að dusta rykið af skýrslunni

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri (SAk), segir tilvalið að heilbrigðisráðuneytið dusti rykið af skýrslu frá 2019 um fýsileika þess að hefja hjartaþræðingaaðgerðir á stofnuninni.

Benedikt Sigurðarson skrifaði grein sem birtist á Akureyri.net í gær þar sem hann varpaði fram þeirri spurningu hvort ekki væri tímabært að koma upp aðstöðu til hjartaþræðinga á SAk. Greinin vakti mikla athygli. 

Engin formleg viðbrögð

Akureyri.net leitaði viðbragða forstjóra SAk við grein Benedikts og fékk eftirfarandi skriflegt svar:

„Fýsileikakönnun vegna hjartaþræðingaaðgerða á SAk var gerð árið 2019. Helstu niðurstöður voru þær að gagnlegt væri að skoða málið betur í góðu samstarfi við ráðuneytið. Ráðuneytið veitti engin formleg viðbrögð við skýrslunni og því féll verkefnið neðar á forgangslista SAk.

Verði verkefnið að veruleika þarf að vera gott samstarf við bæði LSH [Landspítalann] og erlent hágæða sjúkrahús til að viðhalda þjálfun starfsfólks. Ennfremur þyrfti að ráða fleiri sérfræðinga á SAk. Á heildina litið væru slíkar aðgerðir dýrari í framkvæmd á SAk en hjá LSH en þetta er auðvitað spurning um forgangsröðun.

Eins og svo margt annað var þetta mál sett til hliðar í Covid en tilvalið fyrir ráðuneytið að dusta rykið af skýrslunni og hefja samtalið.“

Grein Benedikts

Benedikt sagði meðal annars í greininni:

„Fyrir liggur að fjöldi einstaklinga fær hjartaáfall þar sem menn búa og starfa á Norður og Austurlandi - innan tveggja klukkustunda útkallsfjarlægðar frá Akureyri. Vitandi af langflestir sem fá slíkt áfall og komast í neyðarþræðingu innan hóflegs tíma lifa áfallið af og margir verða fyrir takmörkuðum áverka á hjarta. Með því að sjúklingur komist undir læknishendi með hraði og í aðgerð innan sem skemmst tíma munu flestir lifa góðu lífi – jafnvel 20-30 ár og – verða áfram virkir þátttakendur á vinnumarkaði og sem samfélagsþegnar og hluti af hamingjusamri fjölskyldu,“ segir eftirlaunamaðurinn Benedikt í greininni.

Þetta kosti auðvitað töluverða fjárfestingu en ákvörðunin sé ekki eingöngu kostnaðarlegt mat; „heldur er það pólitísk ákvörðun sem byggist á því hvort við sem samfélag viljum tryggja þennan aðgang að umræddri og mikilvægri bráða- og sérfræðiþjónustu.“

Smellið hér til að sjá grein Benedikts Sigurðarsonar