Fara í efni
Fréttir

Hallarekstur bæjarins ríflega milljarður

Leikskólinn Klappir, sem nú rís óðfluga við hlið Glerárskóla. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Gert er ráð fyrir að rekstrarhalli Akureyrarbæjar á næsta ári verði ríflega einn milljarður króna. Þetta kemur fram í fjárhagsætlun sem gengið var frá í bæjarráði í morgun og vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Aldrei í sögu bæjarins hefur verið gert ráð fyrir viðlíka rekstrarhalla. Hluta hans má rekja til halla á málaflokki fatlaðra sem nemur um 500 milljónum króna en bæjarstjórn bindur vonir við að viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun málaflokksins skili árangri strax á næsta ári. Vert er að geta þess að mesta hagræðingin í fjárhagsáætlun 2021 er hins vegar að rekstur Öldrunarheimila Akureyrarbæjar færist til ríkisins; á þessu ári verður framlag Akureyrarbæjar vegna rekstrar öldrunarheimilanna um 500 milljónir króna.

12 mánaða börn fá leikskólapláss

„Við höfum orðið fyrir tekjufalli vegna Covid, það hefur áhrif á reksturinn, og á sama tíma sjáum við fram á miklar launahækkanir vegna kjarasamninga sem hafa verið gerðir. Þetta eru miklar áskoranir en við reynum að halda sjó, verja störf og fara í tiltölulega mildar aðgerðir til að mæta þessu,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, við Akureyri.net. Á sama tíma er reynt að blása til sóknar, segir Guðmundur. Hann nefnir mestu fjárfestingar  bæjarfélagsins um þessar, endurbyggingu Lundarskóla og byggingu stærsta leikskóla bæjarins sem rís nú við hlið Glerárskóla. Stefnt er að því að leikskólinn, Klappir, verði tekinn í notkun næsta haust og þá segir Guðmundur stefnt að því að 12 mánaða börn verði tekin inn í skólann. Gert er ráð fyrir því að leikskóladvöl þeirra barna verði á sambærilegu verði og þjónusta dagforeldra.

Sem kunnugt er starfa nú allir flokkar saman í meirihluta í bæjarstjórn og í frétt frá Akureyrarbæ segir að allir séu sammála um að standa sérstakan vörð um viðkvæmustu hópa samfélagsins og að setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang. „Gríðarlegar efnahagsþrengingar blasa við ríki og sveitarfélögum af völdum kórónuveirufaraldursins og er óumflýjanlegt að bregðast við. Rekstrarstaða Akureyrarbæjar er mjög erfið og því er nauðsynlegt að horfa til umbóta og hagræðingar í rekstri til lengri tíma. Í ljósi aðstæðna telur bæjarstjórn þó rétt í fyrstu að grípa til tiltölulega mildra aðgerða og verja störf eins og kostur er. Markmiðið er að brúa dýpstu kreppuna þannig að samfélagið allt geti blásið til sóknar samhliða því sem faraldrinum slotar. Hagstæð skuldastaða sveitarfélagsins verður nýtt og ekki verður dregið úr framkvæmdum sem fjármagnaðar verða með lántöku.“

Laun hækka um 700 milljónir, útsvar um 300

„Við gerð fjárhagsáætlunar er lögð sérstök áhersla á fræðslumál og velferðarþjónustu og er þannig hugað að viðkvæmustu hópum samfélagsins sem og börnum og ungmennum. Lagt er upp með hóflega hækkun á gjaldskrám, alla jafna um 2,5%. Launakostnaður bæjarsjóðs mun hækka um rúmlega 700 milljónir á næsta ári vegna kjarasamningsbundinna hækkana, útsvarstekjur hækka þó aðeins um 300 milljónir króna. Óhjákvæmilegt er að bregðast við og því er lagt upp með 2,5% hagræðingu í launakostnaði. Þá verður með fjölbreyttum leiðum dregið úr kostnaði í kerfinu. Fasteignaskatts- og útsvarsprósenta verða óbreyttar á milli ára,“ segir í tilkynningu bæjarins.

Fram kemur að sérstök áhersla verði lögð á skipulagsmál og stendur til að setja skipulag miðbæjarins í forgang. Margir hafa beðið spenntir eftir því, allar götur síðan samkeppni fór fram um skipulag svæðisins fyrir nokkrum árum.

Þess má geta að ákveðið hefur verið að byggja við Ráðhúsið á næstu árum og sameina stjórnsýslu sveitarfélagsins á einum stað. Guðmundur segir að áætlað sé að með því megi draga árlega úr rekstrarkostnaði um 150 milljónir króna.