Fara í efni
Fréttir

Þróar hugbúnaðarlausn fyrir börn með sérþarfir

Elísabet Ásta, lengst til vinstri, ásamt öðrum verðlaunahöfum í AWE-frumkvöðlahraðlinumm. Mynd: HÍ/Kristinn Ingvarsson.

Akureyringurinn Elísabet Ásta Ólafsdóttir útskrifaðist sem hugbúnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands 24. júní og vann til verðlauna í AWE-frumkvöðlahraðlinum innan Háskóla Íslands í vor fyrir hugmynd að hugbúnaðarlausn sem ætlað er að bæta þjónustu við grunnskólabörn með sérþarfir. AWE stendur fyrir Academy for Women Entrepreneurs, sem HÍ og bandaríska sendiráðið á Íslandi stóðu saman að á vormisseri í þriðja sinn nú í vor.

Fjallað var um Elísabetu og verkefni hennar á vef Háskóla Íslands nýlega. Hugmyndin gengur út á að þróa hugbúnaðarlausn til að leysa af hólmi samskiptabók milli skólans og forráðamanna barna með sérþarfir.

Elísabet Ásta hlaut styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að þróa verkefnið áfram í sumar og mun vinna það áfram í samstarfi við Akureyrarbæ, að því er fram kemur í umfjölluninni. „Ég vinn verkefnið í samstarfi við Akureyrarbæ en með samtali við væntanlega notendur sé ég fram á að góður grunnur verði lagður að lausninni. Ég hlakka til þess að líta til baka, sjá hvert vinna sumarsins nær og hvert hún leiðir mig áfram,“ segir Elísabet Ásta í viðtalinu á vef HÍ.

Í umfjölluninni á vef HÍ er rætt við Elísabetu Ástu og þar segir meðal annars: 

Hugbúnaðarlausn leysir af hólmi samskiptabók

Elísabet Ásta vinnur í sumar að því að þróa vöru sem hún á hugmyndina að en um er að ræða hugbúnaðarlausn sem miðar að því að bæta öryggi í þjónustu við börn með sérþarfir í grunnskólum landsins með því að leysa af hólmi samskiptabók sem gjarnan er notuð. „Í samskiptabókina eru skráðar upplýsingar um dag barns sem gera foreldrum þess kleift að vera upplýst um gang mála. Bókin er mikilvægur liður í þjónustu við börnin og fjölskyldur þeirra vegna þess að oft eiga börnin erfitt með að skýra frá viðfangsefnum hvers dags og eiga að fá að vera laus við það, bókin kemur þar inn og upplýsir,“ bendir Elísabet Ásta á.

Hins vegar er bókin í því formi sem hún er í dag ekki öruggur vettvangur, að sögn Elísabetar Ástu. „Bókin getur t.d. hæglega orðið eftir á vergangi og þá getur hver sá sem kann að lesa grúskað í afar persónulegum upplýsingum. Þegar mér varð ljóst að málin gætu undið svona upp á sig stóð mér ekki á sama,“ segir hún en hugbúnaðarlausnin er í formi apps/forrits þar sem foreldrar barna með sérþarfir munu geta nálgast upplýsingar um það hvernig börnunum þeirra vegnar.