Fara í efni
Fréttir

Þróa aðferð til að mæla líðan og velferð aldraðra

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.
Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Akureyrarbær hefur í samstarfi við Félagsmálaráðuneytið og starfshóp um lífskjör og aðbúnað aldraðra, hafið vinnu við þróunarverkefni sem miðar að því að leggja grunn að upplýsingagátt eða svokölluðu rafrænu mælaborði um líðan og velferð aldraðra í sveitarfélaginu. Markmiðið er að setja fram samræmdar tölulegar upplýsingar um líðan og velferð aldraðra og móta grunn að rafrænni upplýsingagátt og svo að slíkar upplýsingar verði mögulega einnig aðgengilegar víðar á landinu. Með slíku mælaborði verður mögulegt að fá fram heildarmynd af almennri stöðu aldraðra í samfélaginu á hverjum tíma og beina sjónum stjórnvalda að verkefnum sem brýnast er að takast á við og forgangsraða.

Þetta kemur fram í grein sem Ingibjörg Isaksen, bæjarfulltrúi og formaður starfshóps um lífskjör og aðbúnað aldraðra, og Halldór S. Guðmundsson, félagsráðgjafi og framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, skrifa og birtist í dag.

Þau segja meðal annars: „Breytingar í aldurssamsetningu þjóðarinnar er ein af stóru áskorunum íslensks samfélags. Fjöldi eldra fólks eykst og hlutfall aldraðra af heildarmannfjölda fer ört hækkandi á næstu árum og áratugum. Sem dæmi má nefna að hlutfall Íslendinga 60 ára og eldri verður um 23% árið 2025 og um 28% árið 2060. Í hópi þeirra sem eru 80 ára og eldri verður tvöföldun á sama tíma. Hlutfall þess hóps fer úr 4,1% árið 2025 í 8,2% 2060. Þessar staðreyndir þurfum við öll að taka alvarlega, vegna þess að flestir þeirra sem í dag eru 50-60 ára, verða hluti af þeim hópi sem árið 2040 verða á aldrinum 70-80 ára og í hópi þeirra sem verða yfir nírætt um 2060. Það er ekki mikil óvissa um fjöldann, heldur frekar um hvernig samfélagið muni þurfa að bregðast við til að sem flestum einstaklingum í hópnum farnist sem best. Til þess þarf að byggja á upplýsingum og staðreyndum um stöðuna, líðan og velferð þessa hóps svo að ákvarðanir á hverjum tíma skili sér í eflingu lífsgæða eldra fólks.“

Grein Ingibjargar og Halldórs