Fara í efni
Fréttir

Þórunn hyrna styrkir Velferðarsjóðinn

Styrkurinn afhentur. Frá vinstri: Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Þórunnar hyrnu, Eydís Ösp Eyþórsdóttir og Ásdís B. Ásmundsdóttir, gjaldkeri Þórunnar hyrnu.

Zontaklúbburinn Þórunn hyrna á Akureyri afhenti nýlega Velferðarsjóði Eyjafjarðar 300.000 króna styrk til að veita fjölskyldum og einstaklingum velferðaraðstoð.

Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og Rauði krossinn við Eyjafjörð hafa frá árinu 2013 haft samstarf um jólaaðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu. Árið 2022 var ákveðið að útvíkka starfsemina og stofna Velferðarsjóð á svæðinu sem sér um velferðaraðstoð allt árið til að bregðast við aukinni þörf fyrir fjárhagsaðstoð. Starfssvæði sjóðsins er Eyjafjörður, frá Siglufirði til Grenivíkur.

Eydís Ösp Eyþórsdóttir, gjaldkeri sjóðsins, veitti styrknum viðtöku.

Í tilkynningu frá Þórunni hyrnu segir:

Markmið Zonta er að bæta stöðu og lífsgæði kvenna hvar sem er í heiminum, lagalega, á sviði stjórnmála, efnahags og menntunar. Zontaklúbbar vinna m.a. að þessu markmiði með því að safna fjármunum sem renna bæði til alþjóðlegra verkefna og til verkefna í þeirra löndum og heimabyggð. Dæmi um verkefni í heimabyggð sem Zontaklúbburinn Þórunn hyrna hefur styrkt er Aflið/Samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Bjarmahlíð/miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, Kvennaathvarfið og Rauði krossinn og einnig hefur klúbburinn veitt konum námsstyrki og styrki til að komast í sumarleyfi með börnum sínum.