Fara í efni
Fréttir

Þórsvöllur verður Salt Pay völlurinn

Salt Pay völlurinn! Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs í miðjunni, til hægri Gísli Páll Helgason…
Salt Pay völlurinn! Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs í miðjunni, til hægri Gísli Páll Helgason viðskiptastjóri Salt Pay og vinstra megin Egill Örn Gunnarsson mannauðsfulltrúi fyrirtækisins. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

Íþróttafélagið Þór og SaltPay hafa gert með sér samning um að næstu tvö árin muni Þórsvöllur bera nafnið SaltPay-völlurinn. Þetta kemur fram á heimasíðu Þórs í dag. Heimaleikir karlaliðs Þórs og kvennaliðs Þórs/KA í fótbolta verða sem sagt á SaltPay vellinum næstu tvö keppnistímabil í það minnsta.

Þetta er í fyrsta skipti sem Þór gerir samning um að selja nafn á völl félagsins.  Það voru þeir Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs, og Gísli Páll Helgason, viðskiptastjóri SaltPay, sem undirrituðu samninginn.

„Það eru miklir umbótatímar að eiga sér stað hjá SaltPay um þessar mundir en við breyttum nýlega nafni okkar úr Borgun, sem mörgum er kunnugt, í SaltPay. Með breyttum áherslum viljum við styrkja og styðja vel við bakið á íþróttastarfsemi á Íslandi. Það er okkur því mikið gleðiefni að undirrita þennan samning við Þór og fá tækifæri til að sýna vilja okkar í verki og er þetta fyrsta skref okkar í þeirri vegferð sem koma skal,“ segir Gísli Páll Helgason í frétt á heimasíðu Þórs.

Reimar Helgason framkvæmdastjóri Þórs kveðst þar mjög ánægður með samstarfið við SaltPay. „Við höfum áður fengið tilboð í nafn á völlinn, sem var ekki tekið þannig að við værum ekki að skrifa undir hér í dag ef við værum ekki ánægð með þennan samning sem var verið að undirrita.“