Fara í efni
Fréttir

Þórsarar semja við írskan landsliðsmann

Körfuknattleiksdeild Þórs hefur samið við Írann Jordan Blount fyrir komandi keppnistímabil. Hann er 24 ára, 203 cm á hæð og getur leikið sem miðherji eða framherji. Jordan var í landsliði Íra sem sigraði í Evrópukeppni smáþjóða fyrr í mánuðinum og var valinn í fimm manna úrvalslið mótsins.

Írinn lék fjögur ár í bandarísku háskóladeildinni, með liði University of Illinois í Chicago, en síðasta vetur var hann á mála hjá Carbajosa í þriðju deild á Spáni. Þar skoraði hann 9,8 stig að meðaltali í leik, tók 5,8 fráköst, gaf 1,6 stoðsendingu og  „stal“ boltanum í 1,8 skipti að meðaltali í leik.

Jordan Blount er fimmti nýi leikmaðurinn hjá Þór; eins og áður hefur komið fram verður enginn útlendinganna frá síðasta vetri áfram auk þess sem Júlíus Orri Ágústsson er farinn til náms í Bandaríkjunum, þar sem hann mun leik körfubolta með Caldwell háskólanum í New Jersey.

Áður en samið var við Blount höfðu Þórsarar gengið frá samningum við Bandaríkjamanninn Jonathan Lawton, Svisslendinginn Eric Fongue, Norðmanninn Bouna N'Diaye, Dúa Þór Jónsson og Baldur Örn Jóhannesson.