Fara í efni
Fréttir

Þórsarar geta ekki lengur náð efsta sæti

Arnór Þorri Þorsteinsson gerði 12 mörk gegn Haukum í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar töpuðu í gær fyrir ungmennaliði Hauka, 34:29, í næst efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Grill66 deildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði. Þar með eiga Þórsarar ekki lengur möguleika á vinna deildina. Efsta liðið fer beint upp í Olís deildina, þá efstu, en næstu fjögur leika um annað laust sæti þar.

Segja má að Þórsarar hafi tapað leiknum með afleitri frammistöðu í fyrri hálfleik. Þegar flautað var til loka hans var átta marka munur Haukum í vil, 21:13, og það bil náðu gestirnir ekki að brúa.

Mörk Þórs: Arnór Þorri Þorsteinsson 12, Hilmir Kristjánsson 5, Tomislav Jagurinovksi 2, Elvar Örn Jónsson 2, Halldór Yngvi Jónsson 2, Jón Ólafur Þorsteinsson 2, Jóhann Einarsson 2, Viðar Ernir Reimarsson 1, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 1.

Í dag, sunnudag, leika Þórsarar við ungmennalið Vals í Reykjavík. Leikurinn hefst klukkan 14.30 á heimavelli Vals að Hlíðarenda.