Fara í efni
Fréttir

Þorleifur Jóhannsson smiður og trommari látinn

Þorleifur Jóhannsson smiður og trommari látinn

Þorleifur Jóhannsson, húsgagnasmíðameistari og trommuleikari, lést á Þorláksmessu eftir stutta en snarpa baráttu við krabbamein. Þorleifur fæddist 11. október 1951 og var því 69 ára þegar hann lést. Eiginkona Þorleifs er Ellen Einarsdóttir og áttu þau þrjú börn saman, Rakel, Agnesi og Einar Frey. Áður átti Þorleifur soninn Sverri Frey.

Þorleifur starfaði í mörg ár sem smiður en nam síðan uppeldis- og kennslufræði og kenndi smíðar í Verkmenntaskólanum á Akureyri seinni hluta starfsævinnar.

Þorleifur var kunnur tónlistarmaður – gjarnan kallaður Leibbi trommari, enda lék hann á trommur í hinum ýmsu hljómsveitum frá 13 ára aldri, nær óslitið til dauðadags, í hálfan sjötta áratug. Hann hóf ferilinn í Bravó, sem varð fræg árið 1965 þegar hún hitaði upp fyrir bresku hljómsveitina Kinks á átta tónleikum í Austurbæjarbíói í Reykjavík. Kinks var þá þriðja vinsælasta rokkhljómsveit heims en strákarnir í Bravó 13 og 14 ára. Síðar lék Þorleifur m.a. í Hljómsveit Ingimars Eydal, Hljómsveit Finns Eydal og Hljómsveit Ingu Eydal svo einhverjar séu nefndar, og var enn að; Leibbi lék síðustu árin með sveit sem kallar sig Einn og sjötíu.

Það var eftir að Bravó kom fram á skemmtun í Skíðahótelinu í Hlíðarfjalli um páskana 1965 að Bravó komst á kortið. Þar heyrði Andrés Indriðason í strákunum og bauð þeim fljótlega í útvarpsviðtal, sem tekið var upp í Sjallanum. Þar voru einnig tekin upp þrjú lög með hljómsveitinni.

Bravó kom ætíð fram í þverröndóttum peysum. Leibbi sagði þeim sem þetta skrifar ýmsar sögur frá Bravó tímabilinu, snemma þessa árs, þegar vinna stóð yfir við blað sem er hluti sýningarinnar Tónlistarbærinn Akureyri, sem opnuð var 13. júní síðastliðinn. Þá bar útvarpsþáttinn á góma: „Ég man að ég mætti í peysunni í Sjallann. Mér fannst mikilvægt að vera í Bravó peysunni í útvarpsviðtalinu!“ sagði hann og hafði gaman af. Sagðist hugsanlega eini maðurinn í heiminum sem hefði klætt sig sérstaklega upp á fyrir útvarpsviðtal!

Þorleifur verður jarðaður 11. janúar kl. 13.30 í Akureyrarkirkju að viðstöddum nánustu ættingjum og vinum. Útförinni verður streymt á Facebook-síðunni Jarðarfarir í Akureyrarkirkju.

Hljómsveitin Einn og sjötíu lék fyrir utan Minjasafnið við opnun sýningarinnar Tónlistarbærinn Akureyri 13. júní síðastliðinn. Frá vinstri: Ingólfur Jóhannsson, Ragnheiður Júlíusdóttir, Þorleifur Jóhannsson, Snorri Guðvarðsson og Finnur Finnsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Strákarnir í Bravó 1965, og heilsíðuauglýsing úr Morgunblaðinu fyrir tónleikana þar sem þeir hituðu upp fyrir Kinks. Frá vinstri: Þorleifur Jóhannsson, Helgi Vilberg, Kristján Guðmundsson og Sævar Benediktsson.