Fara í efni
Fréttir

Þór mætir Leikni aftur en nú í deildinni

Þór og Leiknir mætast á Þórsvelli í annað sinn í vikunni. Á myndinni er Rafnar Máni Gunnarsson í leik liðanna á þriðjudaginn var þar sem Þórsarar höfðu 3:1 sigur. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Þórsarar mæta Leiknismönnum í þriðju umferð Lengjudeildar karla, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn fer fram á Þórsvelli.

Þessi tvö lið mættust einmitt á Þórsvelli á þriðjudaginn var í Mjólkurbikar karla. Þá höfðu Þórsarar 3:1 sigur þar sem mörk Þórs komu frá Aroni Inga Magnússyni, Ion Perrello og Ingimar Arnari Kristjánssyni.

Bæði liðin eru með þrjú stig eftir tvær umferðir. Leiknir situr í fjórða sætinu á meðan Þórsliðið er í því fimmta. Þór tapaði 1:0 gegn Aftureldingu í seinustu umferð á meðan Leiknismenn töpuðu 3:2 á heimavelli gegn Selfyssingum.

Þórsliðið hefur haft góð tök á Leiknismönnum í gegnum árin. Seinasti tapleikur Þórs gegn Leikni í deildinni kom fyrir tæpum sjö árum síðan eða í júlí árið 2016. Síðan þá hefur Þór unnið 5 leiki en þrír þeirra hafa endað með jafntefli.

Leikurinn hefst klukkan 15:00