Fara í efni
Fréttir

Þór fékk á sig fjögur mörk á sjö mínútum

Ásgeir Marinó Baldvinsson var rifinn niður í teignum þegar boltinn var á leið til hans fyrir framan …
Ásgeir Marinó Baldvinsson var rifinn niður í teignum þegar boltinn var á leið til hans fyrir framan markið, en ekkert dæmt. Ótrúlegt! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór steinlá fyrir Vestra, 4:0, í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar í knattspyrnu á Ísafirði í kvöld, í furðulegum leik.

Eftir heldur rólegan fyrri hálfleik byrjuðu Þórsarar þann seinni ágætlega, en heimamenn gerðu svo fjögur mörk á sjö mínútna kafla um miðjan hálfleikinn; já, þetta er ekki prentvilla – fjögur mörk á sjö mínútum!

Tvö markanna komu beint úr aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig og hin tvö gerðu Vestramenn eftir hraðaupphlaup, nokkrum sekúndum eftir að Þórsarar tóku hornspyrnu. Það er með nokkrum ólíkindum.

Þórsarar voru ekki upp á sitt bestu en leikurinn hefði getað þróast öðruvísi því þeir áttu að fá vítaspyrnu þegar staðan var 1:0. Brotið var svo augljóst í sjónvarpsútsendingu að það jaðrar við hneyksli að hvorki dómari né aðstoðardómari skuli hafa tekið eftir því.

Þórsarar spiluðu laglega fram vinstri kantinn, Fannar Daði Malmquist sendi fyrir markið þar sem Ásgeir Marinó Baldvinsson var í kjörstöðu, en varnarmaðurinn Jesus Maria Meneses Sabater togaði í handlegg Þórsarans svo hann féll við. Ekkert var dæmt en Þórsarar fengu hornspyrnu. Þegar hornið var tekið voru 65 mínútur og 45 sekúndur liðnar af leiknum og boltinn lá í netinu – hinum megin á vellinum – 19 sekúndum síðar.

Ekki nóg með að Þórsarar fengu ekki vítaspyrnu, sem þeir áttu augljóslega að fá, heldur virtist Ísfirðingurinn, sem skoraði eftir hraðaupphlaupið, taka boltann niður með hendinni áður en hann brunaði fram völlinn. Málshátturinn Ekki tjáir að deila við dómarann átti vel við á þessum stutta leikkafla.

  • 1:0 ... Nicolaj Madsen (64. mín.) – glæsilegt skoti beint úr aukaspyrnu úti fyrir miðjum vítateig.
  • 2:0 ... Benedikt V. Warén (67. mín.) – fékk boltann á miðjum velli eftir að Ísfirðingar hreinsuðu fram eftir hornspyrnu Þórs og virtist nota hendina til að hemja boltann en ekkert var dæmt. Warén fór illa með Hermann Rúnarsson, lék inn á teig og skoraði undir Auðun markvörð sem kom út á móti.
  • 3:0 ... Nicolaj Madsen (69. mín.) – aftur skot beint úr aukaspyrnu úti fyrir miðjum teig. Varnarveggur og markvörður hefðu þurft að vinna betur saman í það skipti.
  • 4:0 ... Martin Montipo (71. mín.) – Þórsarar tóku hornspyrnu, aftur hreinsuðu heimamenn frá og boltinn lá í Þórsnetinu 30 sekúndum síðar.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.