Fara í efni
Fréttir

Þór dró hina sögufrægu Maríu Júlíu til Akureyrar

Akureyrski dráttarbáturinn Sleipnir og María Júlía í morgun. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Varðskipið Þór kom í morgun með sögufrægt skip, Maríu Júlíu, í togi til Akureyrar. Ferðalagið hófst á Ísafirði þar sem þetta gamla skip hefur lengi legið við bryggju. Stefnt er að því að gera það upp, frumviðgerð fer fram í Slippnum á Akureyri en fleyið verður að því loknu dregið til Húsavíkur þar sem halda á áfram með verkefnið.

María Júlía er 137 tonna eikarskip, smíðað í Danmörku en kom til landsins um miðja síðustu öld. Fyrst í stað var það björgunarskip Vestfirðinga en Landhelgisgæslan notaði það einnig um árabil sem varðskip og kom það m.a. við sögu í fyrsta landhelgisstríði Íslendinga.

Hollvinasamtök Maríu Júlíus voru stofnuð á Ísafirði fyrir nokkrum misserum og stefnir félagsskapurinn að því að láta gera skipið upp, sem fyrr segir, og nýta það á einhvern hátt í fyllingu tímans.

Varðskipið Þór, akureyrsku dráttarbátarnir Sleipnir og Mjölnir, og María Júlía í morgun. Strax og allt var klárt við Akureyrarhöfn hélt varðskipið austur um vegna snjóflóða sem féllu í Norðfirði í morgun og verður til taks. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson