Fara í efni
Fréttir

Akureyri verði efld sem norðurslóðamiðstöð

Þingmannanefnd um norðurslóðamál á vegum utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra leggur til að Akureyri verð efld sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi. Ráðherra kynnti í dag tillögur nefndarinnar, sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka, um stefnu Íslands, og á grundvelli þeirra mun ráðherra leggja fram tillögu til þingsályktunar um nýja norðurslóðastefnu.

„Það er mikilvæg áhersla starfshópsins, sem er skipaður fulltrúum allra flokka á þingi, að hlutverk Akureyrar sem miðstöðvar norðurslóða á Íslandi sé eflt. Það er mikilvægt að hafa í huga að viljinn til þess er skýr,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, við Akureyri.net en hann átti sæti í nefndinni.

„Málefni norðurslóða eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu og það er tímabært að uppfæra norðurslóðastefnuna. Hún þarf að miða að því að gæta íslenskra hagsmuna í víðu samhengi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í tilkynningu frá ráðuneytinu og þar segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar, að í tillögum nefndarinnar sé meðal annars „fjallað um stöðu Íslands sem norðurslóðaríkis, víðtæk áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum, breytt landslag öryggismála og velferð þeirra fjögurra milljóna manna sem búa á svæðinu.“ 

Nefndin leggur til að norðurslóðastefna Íslands miði að eftirfarandi áhersluþáttum:

  • Að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um málefni norðurslóða á grundvelli þeirra gilda sem höfð hafa verið að leiðarljósi í íslenskri utanríkisstefnu - m.a. um frið, lýðræði, mannréttindi og jafnrétti
  • Að styðja áfram við Norðurskautsráðið og efla það sem mikilvægasta vettvanginn til samráðs og samstarfs um málefni svæðisins
  • Að leggja áherslu á friðsamlega lausn deilumála sem upp kunna að koma á norðurslóðum og að virða beri alþjóðalög, þar á meðal hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlega mannréttindasáttmála
  • Að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi og taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
  • Að leggja áherslu á að sporna gegn loftslagsbreytingum og bregðast við neikvæðum áhrifum þeirra á norðurslóðum
  • Að setja umhverfisvernd í öndvegi, þar á meðal verndun lífríkis norðurslóða og líffræðilegrar fjölbreytni
  • Að standa vörð um heilbrigði hafsins, þar á meðal vinna gegn ógnum sem felast í súrnun sjávar og hvers konar mengun í hafi
  • Að leggja áherslu á að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á norðurslóðum, þar á meðal hætta brennslu svartolíu í siglingum, að bæta aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum og efla aðgerðir sem tryggja orkuskipti
  • Að beina sjónum að velferð íbúanna á norðurslóðum, meðal annars möguleikum þeirra tillífsafkomu og aðgengi þeirra að stafrænum fjarskiptum, menntun og heilbrigðisþjónustu, að styðja réttindi frumbyggja og jafnrétti í hvívetna, sem og að styðja viðleitni til að vernda menningararf og tungumál þjóðanna sem byggja norðurslóðir
  • Að nýta möguleg efnahagstækifæri á norðurslóðum með sjálfbærni og ábyrga umgengni við auðlindir að leiðarljósi
  • Að efla viðskipti og samstarf á sviði atvinnulífs, mennta og þjónustu innan norðurslóða, ekki síst við næstu nágranna íslands á Grænlandi og í Færeyjum
  • Að vinna að því að efla vöktun og tryggja betur öryggi í samgöngum á hafi og í lofti, m.a. með bættum fjarskiptum og aukinni útbreiðslu gervihnattakerfa, til dæmis vegna gervihnattaleiðsögu
  • Að efla getu til leitar og björgunar, auk viðbragða við mengunarslysum, m.a. með því byggja upp innlendan björgunarklasa og styrkja enn frekar alþjóðlegt samstarf
  • Að gæta öryggishagsmuna á norðurslóðum á borgaralegum forsendum og á grundvelli þjóðaröryggisstefnunnar, vakta vel þróun í öryggismálum í samráði við hin Norðurlöndin og önnur bandalagsríki okkar í NATO, mæla gegn hervæðingu og vinna markvisst að því að viðhalda friði og stöðugleika á svæðinu
  • Að líta jákvæðum augum vaxandi áhuga aðila utan svæðisins á málefnum norðurslóða, að því gefnu að þeir virði alþjóðalög og stöðu norðurskautsríkjanna átta, og fari fram með friðsamlegum og sjálfbærum hætti
  • Að styrkja stöðu og ímynd íslands sem norðurslóðaríkis með því að byggja upp innlenda þekkingu og sérhæfingu í málefnum norðurslóða, og efla miðstöðvar mennta, vísinda og umræðu
  • Að styðja við alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum og auðvelda miðlun á niðurstöðum vísindarannsókna, og að efla innlent rannsóknastarf, m.a. með því að móta rannsóknaáætlun um norðurslóðir
  • Að byggja á árangri Hringborðs norðurslóða og skapa því umgjörð til framtíðar með því að koma á fót sjálfseignarstofnun um Norðurslóðasetur á Íslandi
  • Að efla Akureyri enn frekar sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi, m.a. með stuðningi við mennta- og rannsóknastofnanir og þekkingarsetur, og að efla innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða.

Smelltu hér til að lesa nánar um tillögur nefndarinnar.