Fara í efni
Fréttir

„Þetta er fyrir þig, elsku Rósa mín“

Fólk tók kannski ekki eftir því sérstaklega þegar Rúnar Símonarson hjólaði á Zwift-hjólinu sínu í 48 klukkustundir, samtals 1.200 kílómetra, til að safna fé fyrir Píeta-samtökin í minningu systur sinnar, að sambýliskona hans, Sigrún Haraldsdóttir, hjólaði með honum samtals næstum helming vegalengdarinnar. Sigrún hjólaði 563 kílómetra alls, og var sú sem hjólaði næstmest Rúnari til samlætis.

Rúnar kveðst ekki hafa verið sérlega bjartsýnn á að hann myndi klára þetta – þegar hann var að hefja för á föstudaginn langa. „En með góðu fólki sem kom og hjólaði með mér fór sú hugsun fljótlega í burtu og einbeitti ég mér að því að halda sama hraða og ég var búinn að plana, og spjalla við þá sem ég var að hjóla með,“ segir hann.

Í færslu á Facebook-viðburðinum eftir að Rúnar lauk við þetta afrek skrifaði hann stutta, en hjartnæma kveðju: „Þá er þessi hjóltúr loksins búinn, fullt af fólki sem hjólaði með mér alls staðar úr heiminum. 48 tímarnir enduðu í 1.180 km, en fannst það ekki nógu góð tala þannig að ég hélt áfram upp í 1.200 km. Verð nú að viðurkenna að eftir hjóltúrinn þá runnu tárin úr augum mér. Þetta er fyrir þig, elsku Rósa mín, sakna þín mjög mikið.“

Enn hægt að styrkja til minningar um Rósu

Framtakið gekk vel, en upplýsingar um hve miklu Rúnar náði að safna liggja ekki fyrir þegar þetta er ritað. Á söfnunarsíðunni Gofundme.com setti Rúnar sér það takmark að safna 18.000 norskum krónum. Þar stóð söfnunin í 16.485 norskum krónum í dag – eða ríflega 210.000 íslenskum krónum. Því til viðbótar má svo gera ráð fyrir að fjölmargir styrkjendur hafi millifært beint á reikning Píeta-samtakanna.

  • Til að styrkja í nafni söfnunar Rúnars er hægt að millifæra inn á reikning 0301-26-041041, kt. 4104160690 og setja „Rósa“ í tilvísun.

Meðreiðarfólkið stytti Rúnari stundir

Rúnar hefur kynnst mörgum á tveimur og hálfu ári sem hann hefur hjólað á Zwift. Hann er meðlimur í stærsta klúbbnum á Zwift í Skandinavíu, Vikings, en klúbburinn telur um 1.600 meðlimi. Margir úr Vikings-klúbbnum hjóluðu með Rúnari og einn félagi hans, Arne, var sá sem fylgdi honum lengst allra. Arne hjólaði 633 kílómetra með Rúnari. Þegar flestir hjóluðu með Rúnari voru um eða yfir 100 manns í samfloti með honum samtímis.

Nokkrir Íslendingar sem Rúnar hefur ekki hjólað með áður slógust í för með honum, hafa væntanlega tekið eftir umfjöllun um þetta söfnunarátak hans í íslenskum fjölmiðlum. „Það var sérstaklega gaman að sjá,“ segir Rúnar. „Einnig er hægt í forritinu að spjalla við þá sem maður er að hjóla með, annaðhvort í einkaskilaboðum eða bara við alla. Það stytti stundir mínar mjög mikið enda mikill húmor í þessu hjólreiðafólki,“ segir Rúnar.

Þau sex sem hjóluðu mest með Rúnari fóru öll yfir 300 kílómetrana. Fjölmargir hjóluðu vel yfir 100 kílómetra. Þar á meðal var fólk sem er 63ja ára, 72ja ára og sá elsti sem fylgdi honum, 82ja ára – sem hjólaði yfir 100 kílómetra, allt í einni ferð. „Þannig að það er aldrei of seint að byrja að hjóla,“ segir Rúnar.

Dætur Sigrúnar hjóluðu einnig með Rúnari. Sú eldri, Kristjana, hjólaði 316 kílómetra, en yngri dóttirin, Ingunn, sem hefur ekki hjólað síðan hún var krakki, fór 75 kílómetra.

Dottaði næstum eftir matinn – vakti í 57 tíma

Aðspurður segist Rúnar ekki hafa fundið fyrir neinum sérstaklega erfiðum kafla á þessum 48 tímum og rúmum 1.200 kílómetrum sem hann hjólaði. Sitjandinn var þó farinn að láta vita af sér eftir um 18 tíma hjólreiðar, en Rúnar veit hvað hann er að gera og segir nauðsynlegt á löngum hjóltúrum að nota krem til að koma í veg fyrir núningssár og vera í góðum hjólabuxum með góðum púðum – og ekki í neinu undir þeim.

„Síðasta pásan sem ég tók var fimm tímum fyrir lok hjóltúrsins, en þá fékk ég mér að borða og eftir matinn voru um fjórar mínútur eftir af pásunni. Þá fyrst kom syfjan yfir mig og ég dottaði næstum því. Þá ákvað ég að taka ekki fleiri pásur því þá var ég hræddur um að ég myndi ekki halda mér vakandi,“ segir Rúnar.

Hjóltúrinn sjálfur varði í 48 tíma og 45 mínútur með pásum – en Rúnar var 42 tíma á hjólinu. Þegar takmarkinu var náð tók við sturta, næring og svefn. „Ég fann þá svolítið til í hnjánum og lærvöðvunum, fékk mér svo að borða og slappaði aðeins af áður en ég fór í bólið, en þá var ég búinn að vera vakandi í 57 tíma,“ segir Rúnar. Hann svaf síðan í 12,5 tíma, en þó ekkert sérlega vel að eigin sögn. Þegar hann fór á fætur var líkaminn auðvitað stífur og hann „gekk eins og gamall karl um íbúðina.“

Gönguferð með hundinn og ein Tour de France-hjólaleið

Rúnar var þó ekkert að vorkenna sjálfum sér heldur skrapp út í stutta gönguferð með hundinn til að liðka sig aðeins og skellti sér svo aftur á hjólið og tókst á við erfiðustu brekkuna á Zwift sem heitir Alpe du Zwift, 13 kílómetra leið með 1.050 metra hækkun, til að vekja fæturna aðeins betur. Þetta er ekki bara einhver brekka heldur eftirlíking af brekku sem hjóluð er í Tour de France, Alpe d‘huez.

Zwift – hvernig virkar það?

Forritið sem Rúnar notar er mjög fullkomið og margir möguleikar í boði. Hér eru nokkrir fróðleiksmolar:

  • Hægt er að fylgja öðrum á Zwift, gerast vinir, og síðan að búa til hjóltúr (meet-up) fyrir nokkra vini sem þig langar að hjóla með.
  • Þú getur líka valið hvort þú býrð til hjóltúr sem er sýnilegur á Zwift, öðrum en vinum, eða vera alveg prívat.
  • Ef þátttakendur í hjóltúrnum eru á mismunandi getustigi, kannski nokkrir mjög sterkir hjólarar og nokkrir byrjendur saman í hóp, er hægt að stilla túrinn þannig að öll sem eru með halda hópinn, sama hversu hratt þeir hröðustu hjóla.
  • Á Zwift eru margir klúbbar sem bjóða upp á skipulagða hjóltúra (viðburði) og líka hægt að taka þátt í alls konar keppnum.
  • Í forritinu eru eins konar vélmenni sem hægt er að hjóla með, samtals níu svokallaðir Robopacer (áður kallaðir Pacepartner), sem hjóla á mismunandi hraða og hægt að velja sér einn við hæfi eftir forminu.
  • Þessi vélmenni hjóla á níu mismunandi leiðum, einn á hverri leið, en skipta svo um leið á mánudögum og eru á hverri leið í eina viku. Þeir hjóla allan sólarhringinn og eru með mismunandi liti eftir styrkleikum.
  • Þegar hjólað er í Zwift er einnig tekið mið af hæð og þyngd þess sem hjólar.
  • Einnig skiptir máli hvort hjólað er með öðrum því þegar hjólað er í hóp skiptir máli hvort einhver er fyrir framan þig. Þá ertu í kjölsoginu frá þeim sem eru fyrir framan þig og þá verður aðeins léttara fyrir þig að hjóla.
  • Í þolraun eins og Rúnar lagði á sig um páskana skiptir því máli að hjóla með öðrum, vera með góðan hóp af fólki fyrir framan sig til að létta aðeins undir.
  • Í forritinu skiptir einnig máli á hvernig hjóli þú ert, með hvernig gjarðir. Í forritinu eru 60 getustig (levels) og því hærra sem þú kemst því betra hjól og betri gjarðir geturðu keypt. En gjaldmiðillinn er ekki peningar heldur svokallaðir dropar (svitadropar) sem þú safnar þér fyrir þegar þú hjólar.
  • Auðveldast er að klára fyrstu getustigin, en síðan verður það smátt og smátt erfiðara og tekur lengri tíma eftir því sem þú kemst hærra. Þú safnar stigum fyrir hvern kílómetra sem þú hjólar, XP (experience points), færð ákveðið marga punkta fyrir hvern kílómetra og svo eru bónusar og leiðir og alls konar áskoranir sem þú klárar.