Fara í efni
Fréttir

Þekkir þú ... Fólk getur lagt sitt af mörkum

Hörður Geirsson, safnvörður ljósmyndadeildar Minjasafnsins leggur lokahönd á sýninguna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Ljósmyndasýningin Þekkir þú ... verður opnuð í Minjasafninu á Akureyri á föstudaginn. Þar geta gestir safnsins lagt sitt af mörkum. Spurt er: Þekkir þú staðinn, atburðinn, fólkið, húsið eða bílinn? Býrð þú yfir sögu sem tengist myndefninu? Fólki stendur til boða að skoða fjölda gamalla ljósmynda og gá hvort það geti komið með upplýsingar um þær.

Minjasafnið á Akureyri býr yfir rúmlega þremur milljónum mynda. Mörgum þeirra fylgja jafnvel engar upplýsingar en safnið stendur árlega fyrir sýningu sem þessari og er hægt að sjá eldri sýningar á vef safnsins. Á þessari sýningu eru myndirnar m.a. úr safni KEA, einnig eftir áhugaljósmyndarann Hartman Eymundsson og ýmsa aðra.

Sýningin er í suðursal Minjasafnsins og stendur frá næsta föstudegi, 19. febrúar, til 28. mars.