Fara í efni
Fréttir

„Þeir eru búnir að drepa Bjarna bróður!“

Bjarni Felixson, lengst til hægri, eftir sigur KR í bikarkeppninni í knattspyrnu árið 1960 þegar hún fór fram í fyrsta skipti. Hörður bróðir Bjarna er við hlið hans, fyrir aftan þá er Ellert B. Schram, lengi forseti ÍSÍ, og til vinstri Sveinn Jónsson, sem lengi var formaður KR.

Bjarni Felixson íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins til áratuga verður jarðsunginn í dag frá Neskirkju í Reykjavík. Bjarni var kunnur knattspyrnumaður með KR á árum áður og einskonar þjóðargersemi sem íþróttafréttamaður.

Bjarni lék oft gegn Akureyringum á yngri árum. Hér að neðan er óborganleg saga af leik Íþróttabandalags Akureyrar og KR á Akureyrarvelli árið 1960. Hún er birt í bókinni Vesturbærinn - Húsið - Fólkið - Sögurnar, sem skráð er af Sigurði Helgasyni og kemur út í þessum mánuði hjá Bókaútgáfunni Hólum.

Ritstjóri Akureyri.net kveður Bjarna Felixson og þakkar áratuga vináttu. Hólar gáfu góðfúslegt leyfi til að birta söguna.

Grjótkast á Akureyri!

Í félagsblaði KR, sem gefið var út árið 1969 í tilefni af 70 ára afmæli stórveldisins, er viðtal við Bjarna Felixson, sem á sínum tíma hlaut viðurnefnið Rauða ljónið og var hann síður en svo óánægður með það, baráttuglaði vinstri bakvörðurinn. Grípum hér niður í viðtalið:
„Ég hef verið í þessu í rúman áratug og aldrei verið ánægðari með leik minn en þegar liðinu er illa tekið af áhorfendum. Sérstaklega hef ég notið þess, ef þeir hafa tekið mig fyrir, því að það hefur hert mig í baráttunni. Ég hef komist áfram á keppnisskapi og hörku og verið bestur, er við höfum átt í vök að verjast. Maður var orðinn dauðleiður á þessu árið 1959, þegar við unnum öll lið með yfirburðum.

Úrklippa úr Morgunblaðinu eftir leikinn umtalaða á Akureyrarvelli sumarið 1960.

Einkum er þó margs að minnast frá Akureyri. Árið 1960 höfðu þeir átt lélega byrjun í mótinu, eins og oftar, en áttu eftir heimaleikina síðari hluta sumars. Við áttum að fara norður og þá höfðu þeir unnið Fram fyrir skömmu. Daginn fyrir norðurför okkar var tilkynnt landslið og var „augasteinninn“ [Jón Stefánsson] þeirra utangarðs. Var nokkur ólga nyrðra af þeim sökum og þegar við komum var fullur völlur eins og venjulega.

Í fyrri hálfleik áttum við varla upphlaup. Akureyringar áttu leikinn og áhorfendur voru allæstir. Snemma í leiknum slapp einn þeirra í gegn en ég næ að renna mér á knöttinn og afstýra hættunni. Varð þá nokkur urgur meðal áhorfenda. Rétt á eftir lendir okkur aftur saman á kantinum og ég næ boltanum eftir návígi og geysist fram völlinn. Ræðst hann þá aftan að mér með þeim árangri að ég hlaut mikið sár á fæti og áminningu frá dómara en forystumaður heimamanna heimtaði að ég yrði rekinn út af. Ég lék þó áfram og barðist „eins og ljón“ og Gísli [Þorkelsson], varamarkvörður, varði meistaralega.

Eftir hálftíma leik skora Akureyringar, en Þórólfi [Beck] tókst að jafna fyrir hálfleik. Í leikhléi kom héraðslæknirinn, leit á sárið og sagði að það yrði að gera að því, en ég aftók það með öllu.

Ungir menn og laglegir! Samúel Örn Erlingsson, þá blaðamaður á Tímanum og síðar lengi starfsmaður RÚV, Bjarni Felixson og Skapti Hallgrímsson, íþróttafréttamaður á Morgunblaðinu og nú ritstjóri Akureyri.net, á þingi norrænna íþróttafréttamanna í Finnlandi árið 1983. Myndin er tekin í Lahti.

Í síðari hálfleik náðum við tökum á leiknum og sigruðum, 5:2. Þá lék ég fjær stúkunni og var þar fyrir hópur 20-30 stráka undir stjórn fyrrgreinds íþróttaleiðtoga norðanmanna. Er ekki að sökum að spyrja, að þegar séð var fyrir um úrslit, hófu þeir grjótkast að okkur.

Í miðjum hálfleiknum fékk Gísli mikið spark og leist mér þá ekki á blikuna. Meðan menn hugðu að meiðslum hans, tók ég boltann og henti honum á bak við grjóthrúgu við völlinn. Æpti þá lýðurinn: Út af með rauða tuddann! Var mörgum heitt í hamsi og í leikslok ruddust menn inn á völlinn í bræði sinni.

Ég hafði vart gengið 10 skref, eftir að flautað var af, þegar lögregluþjónar koma til mín og biðja mig að koma eins og skot. Voru þeir komnir að undirlagi héraðslæknisins og óku mér til hans í aðgerð.

En það er af félögum mínum að segja, að þegar þeir komu í rútuna, sem aka skyldi til búningsklefa annars staðar í bænum, urðu þeir þess varir að mig vantaði. Þeir þustu út á völl og fundur þar annan skóinn minn, sem ég hafði losaði mig við vegna meiðslanna, er leik lauk. Þá mælti Hörður bróðir þessi fleygu orð:

„Hérna er skórinn. Þeir eru búnir að drepa Bjarna bróður!““

Metaðsókn var á leiknum, 3964 áhorfendur mættu til að horfa á ÍBA og KR og urðu einhver blaðaskrif út af þeim skrílslátum sem þarna urðu.

Bjarni Fel og Laddi í ógleymanlegu atriði úr áramótaskaupinu 1985 þar sem Laddi las fyrir Bjarna! Skjáskot af RÚV.