Fara í efni
Fréttir

„Það hefur verið líflegt hjá okkur“

Hópur beið fyrir utan ELKO rétt fyrir opnun í morgun, röðin náði fyrir hornið enda gott bil á milli fólks. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Nokkrir tugir biðu fyrir utan stórverslun ELKO þegar hún var opnuð klukkan 11 í morgun. Sá fremsti sagðist hafa mætt klukkutíma fyrr. Verslunin telst standa við Tryggvabraut, en reyndar er gengið inn frá Furuvöllum.

„Það hefur verið líflegt hjá okkur, þetta er hittari dagsins,“ sagði Haukur Már Hergeirsson, verslunarstjóri, við Akureyri.net eftir hádegið.

Haukur sagðist í raun hafa rennt nokkuð blint í sjóinn, ekki síst vegna Covid, en 100 manns mega vera í versluninni á sama tíma og allir komust inn sem biðu fyrir utan. „Það hefur verið mikið að gera, töluverð sala en rosalega margir að koma og skoða búðina. Hún er glæsileg; þetta er fyrsta búðin á Íslandi, fyrir utan þá í Leifsstöð, sem er með þessu nýja ELKO útliti,“ segir Haukur.

Undirbúningur að opnun verslunarinnar á Akureyri hefur tekið nokkur ár, en lokaspretturinn hefur staðið yfir síðustu tvo mánuði. „Við fengum húsnæðið afhent í september og nóg hefur verið að gera síðan.“

Ekki eru auglýst sérstök tilboð í tilefni opnunarinnar hvað sem síðar verður. „Við viljum sýna samfélagslega ábyrgð vegna Covid og blásum því ekki til sérsakrar tilboðaveislu en vísum eftir sem áður á vefinn, þótt við viljum auðvitað taka á móti öllum sem vilja koma til okkar. Við viljum eiga ánægðustu viðskiptavinina á raftækjamarkaðnum og segjum gjarnan: það sem skiptir þig máli, skiptir okkur máli. Við leggjum mikið upp úr því að veita góða þjónustu,“ sagði Haukur.

Starfsfólk rétt áður en verslunin var opnuð. Haukur Már Hergeirsson verslunarstjóri tók á móti fyrstu viðskiptavinunum.

Starfsfólk stillti sér upp og klappaði þegar fyrstu viðskiptavinirnir gengu í salinn.