Fara í efni
Fréttir

Tesla opnar útibú á Akureyri

Mynd frá Tesla, Inc.

Útibú bílaframleiðandans Tesla verður opnað á Akureyri í lok árs 2024 eða byrjun árs 2025. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu í morgun. Heimildir Akureyri.net herma að útibúið verði við Baldursnes, í nýbyggingu sem reist verður á lóðinni sunnan við BYKO.

„Tesla mun starfrækja á Akureyri sölu-, þjónustu- og afhendingarmiðstöð og er áætlað að ráða um 10 manns í tengslum við opnunina. Við hlökkum til að skapa nánari tengsl við fólkið á svæðinu sem vill fræðast meira um Tesla og akstur rafbíla,“ segir í tilkynningunni.

Tesla rekur nú þegar sölu-, þjónustu- og afhendingarmiðstöð í Reykjavík „en opnunin á Akureyri er mikilvægur þáttur í stækkun Tesla á Íslandi og gerir okkur kleift að bæta þjónustuna við núverandi og nýja viðskiptavini enn frekar á svæði þar sem vaxandi áhugi er á rafbílum.“

Lóðin við Baldursnes þar sem reist verður bygging fyrir útibú Tesla. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hátt í 5.000 Teslur á Íslandi

Nú eru hátt í 5.000 Tesla ökutæki skráð á Íslandi. „Árið 2022 var Tesla fjórða mest selda bílmerkið á Íslandi, stærsta bílmerkið á einstaklingsmarkaði og fjölskylduvæni jepplingurinn, Model Y, var mest seldi bíll á Íslandi árið 2022,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins.

„Tesla heldur einnig áfram að stækka Supercharger hleðslunetið, hraðhleðslukerfi sem gerir ferðalög um landið auðveldari. Hleðslunetið nær hringinn í kringum landið og eru nú 8 Supercharger hraðhleðslustöðvar í rekstri með 35 hleðslubásum.

Við hlökkum til að opna á Akureyri og taka á móti bæði núverandi og nýjum Tesla eigendum á nýjum stað.“