Fara í efni
Fréttir

Tenging við leiðakerfið frekar en beint flug

Sylvía Kristín Ólafsdóttir og Gísli S. Brynjólfsson frá Icelandair ræða við fundarmenn á Hótel KEA. Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Forráðamenn Icelandair sjá frekar tækifæri í því á næstu árum að tengja Akureyri við leiðakerfi félagsins til margra áfangastaða í Bandaríkjunum og Evrópu en að hefja þaðan beint flug til útlanda.

Þetta kom fram á umræðufundi sem Icelandair og Markaðsstofa Norðurlands stóðu fyrir í vikunni sem leið um tengiflug flugfélagsins á milli Akureyrar og Keflavíkur, sem hefst í október og verður í boði út nóvember. Á fundinn komu ýmsir gestir úr ferðaþjónustu og frá sveitarfélögum á Norðurlandi, til að ræða um tækifæri og áskoranir í þessu verkefni, að því er segir á vef Markaðsstofunnar.

„Það er alltaf gott að koma norður og ennþá betra að koma og eiga virkt og gott samtal um tækifæri ferðaþjónustunnar og uppbygginu á svæðinu. Við erum mjög spennt fyrir flugi frá Akureyri til Keflavíkur nú seinna á árinu og finnum fyrir miklum áhuga frá farþegum erlendis frá að koma á Norðurland. Einnig leggjum við mikið uppúr að læra af reynslu fyrri ára og bjóða upp á gott og endurbætt ferðalag fyrir fólk sem vill fara frá Akureyri út í heim á einum miða,“ er haft eftir Sylvíu Kristínu Ólafsdóttur hjá Icelandair í tilkynningu á vef Markaðsstofunnar.

Hví ekki beint flug til útlanda?

Á vef Ríkisútvarpsins segir að á fundinum hafi komið fram að ímynd innanlandsflugs Icelandair sé löskuð og efasemdir séu um að sex vikur dugi til að tryggja framhald á þessu flugi. 

„Sylvía segir að þau fari í þetta verkefni með talsverða reynslu og þekkingu. Þá tengist þetta flug öflugu leiðakerfi Icelandair. Samstarfið við heimamenn skipti einnig miklu máli og þar finni þau mikinn áhuga,“ segir í frétt RÚV.

RÚV greinir einnig frá því að nokkrir fundarmenn á Hótel KEA hafi lýst furðu sinni á að Icelandair fari þessa leið í stað þess að hefja beint flug frá Akureyri til útlanda. Búið sé að sýna fram á að markaður sé til staðar og heimamenn tilbúnir að fara í slíkt verkefni með Icelandair. Í frétt RÚV er haft eftir Sylvíu að það yrði stór ákvörðun hjá Icelandair að ráðast í slíkt verkefni. Félagið sjái þetta nýja flug sem tækifæri til að tengja Akureyri við leiðakerfi félagsins, til margra áfangastaða í Bandaríkjunum og Evrópu. „Við sjáum að tækifærin til næstu ára liggja meira í að tengja inn í það leiðakerfi heldur en í beinu flugi. En allar góðar hugmyndir þurfa yfirlegu og það þarf að skoða hvort það sé eitthvað í því. En það er ekki alveg á næstu árum sem við sjáum það fyrir okkur. En aldrei að segja aldrei.“

Smellið hér til að sjá frétt RÚV

Mikilvægur fundur

„Fundir á borð við þennan eru mjög mikilvægir til að efla samtal innan ferðaþjónustunnar í landshlutanum og styrkta tengslin á milli ólíkra aðila með sameiginlega hagsmuni. Millilandaflug um Akureyri er eitt það mikilvægasta í þróun ferðaþjónustu á Norðurlandi og því afar ánægjulegt að Icelandair sjái tækifæri í að bjóða upp á þessi tengiflug. Markaðsstofa Norðurlands vonar að bæði ferðaþjónustan og Norðlendingar allir muni nýta þau tækifæri,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri Flugklasans Air 66N, á vef Markaðsstofunnar.

Á vef Markaðsstofunnar segir að markmiðið með tengifluginu sé að auðvelda erlendum farþegum Icelandair að heimsækja Norðurland og sömuleiðis gefa innlendum farþegum þægilegri leið til að fljúga til erlendra áfangastaða. Breytingin felist einna helst í upplifun farþega, sem þurfi ekki að fara í öryggisleit í Keflavík eða koma farangri sjálfir áfram í tengiflugið. Ferlið miðist nú við að allt sé keypt á einum miða og Icelandair beri því ábyrgð á að koma farþegum og farangri á leiðarenda. Markmið Icelandair til framtíðar sé  að efla alþjóðatenginguna við Akureyri og byggja hana upp í takt við eftirspurn.

Fram kemur að í lok ágúst verði haldinn sérstakur Fjölskyldudagur Icelandair, þar sem fólki verði boðið að koma og kynna sér starfsemi flugfélagsins og þjónustuna sem er í boði. Sá dagur verði sérstaklega auglýstur þegar nær dregur.