Fara í efni
Fréttir

Telur haustið komið að vaktaskiptum?

Húsið fallega sem eitt sinn var kallað Skíðahótelið bíður þess í morgunkyrrð gærdagsins að bæjarbúar og aðrir áhugasamir dusti rykið af skíðum sínum og tilheyrandi búnaði. Biðin sú stendur reyndar lengi enn því enginn rennir sér í þessum brekkun næstu mánuði. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Formleg árstíðaskipti eru sum hver meitluð í stein en hin áþreifanlegu háð duttlungum náttúrunnar. Þegar Akureyringar risu úr rekkju í gær hafði gránað í fjöll og gott ef ekki var orðið enn grárra í morgun. 

Haustið er komið, segja sumir, en aðrir telja það fráleitt. Haustlegt, já, en ekki haust, heldur síðsumar. Eða hvað?

Haust er vissulega árstíðin sem tekur við af sumri en skilin eru afar óljós. Hinsvegar verður ekki um það deilt að fyrsti vetrardagur er fyrsti dagur Gormánaðar – 25. október að þessu sinni, þótt sumir telji september, október og nóvember haustmánuði. Formlega er því einungis rúmur mánuður þar til vetur bankar upp á og haustið kannski ekki annað en undirdeild bæði í vetri og sumri. Ef til vill skiptir ekkert af þessu máli og þegar öllu er á botninn hvolft dugar að líkindum aðeins ein leið til þess að komast að því upp á hvaða „árstíð“ er boðið þann daginn; að stinga höfðinu út um gluggann.

Varla fer á milli mála að haustið er smám að taka völdin í þessu fallega tré sem stendur við Brekkugötu.

Hugleiðingar veðurfræðings, sem birtust á vef Veðurstofu Íslands um miðjan dag, segir að hæð yfir Grænlandi og lægðasvæði austur af landinu beini svalri norðlægri átt að landinu.

„Víða kaldi eða strekkingur í dag. Á norðanverðu landinu má búast við einhverjum skúrum eða slydduéljum, en snjóéljum á heiðum. Sunnan heiða verður hins vegar yfirleitt þurrt og bjart veður. Hiti 2 til 9 stig yfir daginn, mildast allra syðst, en víða líkur á næturfrosti,“ segir veðurfræðingurinn og bætir við að keimlíkt veður verði á morgun. „Hægari vindur á laugardag og léttir til fyrir norðan, en stíf norðvestanátt austantil fram eftir degi með lítilsháttar úrkomu. Um kvöldið snýst svo í vestlæga átt og á sunnudag er útlit fyrir að það hlýni með vætu víða um land.“

Súlur, til vinstri, og Hlíðarfjall í morgun. Enn grárra en í gær, sumir myndu segja hvítt – en þessi ljósu sýnishorn staldra varla lengi við. Myndir: Þorgeir Baldursson