Fara í efni
Fréttir

Tap í Keflavík og Þór/KA úr leik

Hulda Björg Hannesdóttir fékk dauðafæri til að koma Þór/KA yfir rétt áður en Keflavíkurliðið náði forystunni. Ljósmynd: Skapti Hallgrimsson

Þór/KA mátti þola 2:0 tap gegn Keflavík í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninnar, í Keflavík í dag. Tvö mörk frá heimaliðinu í seinni hálfleik sáu til þess að Keflavík færi áfram. 

Eftir fyrri hálfleikinn var staðan markalaus. Hvorugu liðinu tókst að skapa sér opin færi í fyrri hálfleiknum og skiptust liðin á að hafa yfirhöndinna. En í seinni hálfleiknum fór að draga til tíðinda.

1:0

Á 59. mínútu kom fyrsta mark leiksins. Linli Tu fékk boltann þá fyrir utan teig Þórs/KA og átti sendingu inn á teig. Þar var Sandra Voitanne sem var mætt og skoraði eftir að hafa átt gott hlaup af hægri kantinum. Þarna virtist rangstöðugildra liðsins klikka. Afar svekkjandi mark að fá á sig en stuttu áður fékk Hulda Björg dauðafæri til að koma Þór/KA yfir.

2:0

Madison Wolfbauer gerði svo annað mark Keflavíkur á 77. mínútu. Eftir fínt spil heimakvenna fékk Sandra Voitane boltann alein vinstra megin í teig Þór/KA. Hún átti sendingu fyrir á Linli Tu sem átti misheppnað skot af markteig. Skotið breyttist má segja í sendingu en boltinn barst til vinstri þar sem Madison var mætt og potaði boltanum yfir línuna.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og loktatölur 2:0 fyrir Keflavík. Bikardraumur Akureyrarliðsins er því úr sögunni þetta tímabilið. Næsti leikur Þórs/KA er heimaleikur gegn FH næstkomandi fimmtudag.

Smellið HÉR til að sjá leikskýrsluna úr leiknum.