Takk: Nýtt vildarkerfi í Bónus og Hagkaup
Nýverið opnuðu Hagar hf. vildarkerfi fyrir viðskiptavini sem ber heitið Takk og er aðgengilegt gegnum app í snjallsímum. Meðlimir í Takk appinu fá aðgengi að sérstökum kjörum og fríðindum hjá Bónus, Hagkaup og Eldum rétt.
Að því er kemur fram í tilkynningu frá Högum eru afslættirnir sem vildarkerfið býður upp á kallaðir Takk krónur (tkr) en viðskiptavinir geta áunnið sér Takk krónur þegar þeir versla valdar vörur í verslunum. Takk krónurnar geta viðskiptavinir svo notað næst þegar þeir versla í verslunum Bónus og Hagkaups um allt land. Ein Takk króna jafngildir einni hefðbundinni krónu.
Til þess að gerast meðlimir í Takk vildarkerfinu þurfa viðskiptavinir að sækja Takk appið, skrá sig inn með rafrænum skilríkjum og setja Takk kortið í veskið í símanum. „Þegar þeir versla sérvaldar vörur í Bónus, Hagkaup og Eldum rétt fá þeir afslátt í formi Takk króna sem þeir geta notað næst þegar þeir versla. Nýjar vörur bætast við á Takk tilboði í hverri viku, en vörurnar eru ekki einungis sýnilegar í appinu heldur einnig merktar á rafrænum hillumiðum í verslunum,“ segir Sesselía Birgisdóttir, forstöðumaður viðskiptavildar, upplifunar og miðlunar hjá Högum í tilkynningunni.
„Nýja vildarkerfið okkar, Takk, gerir okkur kleift að veita viðskiptavinum enn betri kjör en fyrr og bjóða þeim að njóta sambærilegrar þjónustu og tíðkast víða í löndunum í kringum okkur. Við erum stolt af því að geta opnað samtímis fyrir Takk í öllum verslunum Hagkaups, Bónus og Eldum rétt og bæta þannig hag viðskiptavina okkar um allt land,“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga m.a. í tilkynningunni.