Fara í efni
Fréttir

Takið fram sundfötin og svigskíðin á ný!

Takið fram sundfötin og svigskíðin á ný!

Lyfturnar í Hlíðarfjalli verða settar í gang aftur á föstudagsmorgun, eftir að ný reglugerð sóttvarnaryfirvalda tekur gildi, þannig að skíðaáhugamenn geta notið þess að renna sér aftur eftir þriggja vikna lokun. Göngusvæðið hefur verið opið almenningi allan tímann og verður að sjálfsögðu áfram.

Samkvæmt reglugerðinni mega skíðasvæði hleypa 50% af hefðbundnum hámarksfjölda á svæðið í einu.

Opið verður um helgina sem hér segir:

Föstudag 16. apríl 10.00 til 19.00. Tvö 4 klst. holl; frá 10.00 til 14.00 og 15.00 til 19.00.

Laugardag 17. apríl 10.00 til 17.00. Tvö 3 klst. holl; frá 10.00 til 13.00 og 14.00 til 17.00.

Sunnudag 18. apríl 10.00 til 17.00. Tvö 3 klst. holl; frá 10.00 til 13.00 og 14.00 til 17.00.

Miðasala hefst á morgun, fimmtudag, klukkan 12.00.

Verð miða er sem hér segir:

Fullorðnir: 4 klst. = 4.500 kr / 3 klst. = 3.450 kr.

Börn og öryrkjar: 4 klst. = 1.400 kr. / 3 klst. = 1.200 kr.

„Gæta þarf að tveggja metra reglu og er grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja tveggja metra regluna. Þetta er eins og áður hefur verið hjá okkur, við upphaf lyftu, á salernum, í og við skíðahótel og skíðaleigu,“ segir á Facebook síðu Hlíðarfjalls.

  • Töluvert hvassviðri á skíðasvæðinu og göngubrautin verður ekki troðin í dag.

Sundáhugamenn geta líka glaðst því Sundlaug Akureyrar verður opnuð strax í fyrramálið, „stundvíslega kl 6.45 fimmtudaginn 15. apríl með fjöldatakmörkunum. Við hvetjum alla til að halda 2ja metra fjarlægð og gæta persónulegra sóttvarna í sundi sem og annarsstaðar,“ eins og segir á Facebook síðu laugarinnar.