Fara í efni
Fréttir

Svo ósanngjarnt sem mest getur verið

Rósa Pálsdóttir hefur synt alla virka daga í Glerárlaug nær óslitið í 25 ár. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Rósa Pálsdóttir syndir alla virka daga í Glerárlaug og hefur gert það nær óslitið í 25 ár. Rósa er mjög slæm af vefjagigt og gengur við staf. Hún þarf að passa upp á að verða ekki kalt því kuldinn er hennar versti óvinur. Hún getur því ekki synt í útilaugum. Í Glerárlaug er gott aðgengi; bílastæði fyrir fatlaða við innganginn og hvergi tröppur. Rósa kemst því auðveldlega um. Hún syndir og gerir æfingar og þetta er það sem heldur henni gangandi. Eiginmaður hennar er nú hættur að vinna og farinn að fara í sund með henni. Hann er einnig slæmur til gangs og nýtur góðs að þægilegri aðstöðu Glerárlaugar.

Er ekki að fara að prika niður tröppur

Í samtali við Akureyri.net sagði Rósa um fyrirhugaða lokun Glerárlaugar að sér fyndist agalegt ef af því yrði. Og ekki bara fyrir sig. „Það kemur fólk þarna sem kann ekki að synda. Gerir æfingar við bakkann og það fólk fer ekki í aðrar laugar til að gera æfingar. Og ekki ég heldur. Ég treysti mér ekki til þess. Ég fer til dæmis ekki að prika berfætt niður tröppur til að komast í innilaugina í Akureyrarlaug,“ bætir Rósa við.

Hefur synt í Glerárlaug í 32 ár

Svipað er upp á teningnum hjá Kristjáni Kristjánssyni sundkappa og fyrrverandi blaðamanni. Hann syndir nær undantekningarlaust alla virka daga í Glerárlaug og hefur gert það frá opnun hennar árið 1990.

Kristján var ómyrkur í máli þegar Akureyri.net hafði samband við hann og spurði hvað honum fyndist um fyrirhugaða lokun. „Mér finnst það hörmulegt og sýna vesældóm hjá bæjaryfirvöldum ef þau fara þessa leið. Þessu hefur verið hótað á hverju ári en bæjaryfirvöld runnið á rassinn með það jafnoft.“

Hlýtur að vera hægt finna aðra leið

En færi hann í sund annars staðar ef af lokun yrði? „Nei, ég sé það ekki fyrir mér. Glerárlaug hefur reynst okkur vel; alveg frábær með góðu starfsfólki. Þessi laug er fyrir okkur Þorparana og reyndar aðra áhugasama, á að vera virk og opin almenningi.“ Og Kristján bætir við: „Það hlýtur að vera hægt að finna aðra leið, t.d. að láta kostnaðaráætlanir standast. Oft alveg skelfilegt að horfa upp á þetta, þarna er engin ábyrgð.“

Kristján nefnir einnig að tímasetning bæjaryfirvalda til að tilkynna um lokun hafi ekki verið sérlega heppileg. Um það segir hann: „Alveg frábært að þessi umræða kom í miðju landsátaki í sundi. Það var þeirra framlag til átaksins.“ Að lokum segir Kristján að sér finnist þó lýðræðislegt og gott að stjórnvöld hlusti á hvað fólk vill og að menn geti séð að sér. Það verði fróðlegt að sjá hvernig þetta fari.