Fara í efni
Fréttir

Sveitarfélögin þurfa að þróast og breytast

Ásthildur Sturludóttir við eitt embættisverka ársins; flytur ávarp við opnun sýningarinnar Tónlistarbærinn Akureyri 13. júní. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Það er gott að búa á Akureyri. Í mínum huga hefur það komið sérstaklega vel í ljós á tímum Covid-19 að það er hvergi betra að vera, hvergi frekar en á Íslandi vildi ég vera þegar heimsfaraldur herjar á mannkyn,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, í ávarpi sem birtist á heimasíðu bæjarins í gær,

„Bærinn breytist ört og stækkar. Íbúar sveitarfélagsins hafa aldrei verið fleiri og ég finn af samtölum mínum við fólk víða um land að hingað vill fólk flytja, hér vill það leggja gjörva hönd á plóg og vinna saman að framfaramálum til hagsbóta fyrir alla.“

Áshildur segir eitt af því sem Covid-19 faraldurinn hafi kennt fólki sé að fagna öllum breytingum til betri vegar, „allri framþróun, og nýta betur þá tækni sem við búum yfir nú til dags. Okkur hefur orðið betur ljóst mikilvægi stafrænna lausna í rekstri nútíma samfélags og nú eru fjarfundir til að mynda daglegt brauð en með þeim sparast bæði tími og fé.“

Bæjarstjórinn segir ljóst í sínum huga að sveitarfélag sem vill skara fram úr verði á allra næstu árum að vera óhrætt við að taka breytingum og þróa hratt og til hins ýtrasta tæknilegar lausnir í stafrænum veruleika. „Þannig sveitarfélag er Akureyrarbær. Þannig sveitarfélag viljum við vera,“ segir Ásthildur. Hún segir ljóst að margt muni breytast í náinni framtíð. „Þær búsifjar sem þjóðir heims hafa orðið fyrir af völdum Covid-19 kalla á breytingar. Þegar öllu er á botninn hvolft þá verða þær breytingar vonandi til góðs. Stundum er sagt að til séu tvenns konar fyrirtæki; þau sem taka breytingum og hin sem hverfa. Það sama á að mínu mati við um sveitarfélögin. Þau þurfa að þróast og breytast,“ segir Ásthildur.

„Árið 2020 var okkur ákaflega erfitt. Alheimskreppa blasir við vegna pestarinnar en þegar ég lít yfir farinn veg í starfsemi sveitarfélagsins þá undrast ég hversu miklu var engu að síður komið í verk, hversu mikið við lærðum af þrengingunum og hversu vel okkur hefur miðað áfram þrátt fyrir aðstæður sem eiga sér varla nokkra hliðstæðu.“

Hún segir bæjarsjóð Akureyrar standa frammi fyrir meira tekjufalli en áður hafi þekkst, „en menn láta ekki neinn bilbug á sér finna, hafa ráðist í ýmsar aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu og treyst enn frekar stoðirnar undir nauðsynlega þjónustu sveitarfélagsins. Seinni hluta ársins var raunsæ fjárhagsáætlun fyrir árin 2021-2024 unnin í afar þröngri stöðu en þar er gert er ráð fyrir að fjárhagur sveitarfélagsins komist aftur á réttan kjöl innan örfárra ára. Það mun takast! Sem betur fer er sveitarfélagið lítið skuldsett og reksturinn tryggur þó svo að hann sé þungur. Því allt bendir til þess að næstu ár verði erfið þar sem sérfræðingar álíta að einhver dýpsta kreppa allra tíma gangi yfir efnahagskerfi heimsins í kjölfar Covid-19.“

Bæjarstjórinn á Akureyri þakkar bæjarbúum og landsmönnum öllum fyrir öfluga samstöðu á árinu sem er að líða. „Enn og aftur höfum við sýnt og sannað að með samtakamætti getum við sigrað flestar þrautir og komist í gegnum erfiðleikana. Munum að hugsa hlýtt til þeirra sem syrgja ástvini um þessi áramót, hugsum til þeirra sem eiga um sárt að binda og sendum einkum og sér í lagi vinum okkar á Seyðisfirði hlýjar kveðjur í því mótlæti sem þeir hafa mætt í þeim hamförum sem gengu yfir bæinn fagra,“ segir Ásthildur Sturludóttir.

Ávarp Ásthildar í heild