Fara í efni
Fréttir

Svefnrannsókn í MA: „Er ungt fólk að sofa nóg?“

Ingibjörg Magnúsdóttir íþróttakennari við Menntaskólann á Akureyri. Ljósmynd: Rakel Hinriksdóttir

Í Menntaskólanum á Akureyri er verið að rannsaka svefnheilbrigði nemenda annað árið í röð. Valkvætt er að taka þátt í rannsókninni og eru það nemendur í 1. bekk sem fengu boð um þáttöku að þessu sinni. Ingibjörg Magnúsdóttir er íþróttakennari við skólann og hún heldur utan um rannsóknina. „Öllum fyrstubekkingum var boðið að taka þátt. Það eru rúmlega 180 krakkar í fyrsta bekk og þáttakendur eru rétt yfir 90,“ segir Ingibjörg.

„Svefn er svo stór hluti af heilsu almennt, og ég hef brunnið fyrir öllu sem tengist lýðheilsu,“ segir Ingibjörg. „Mágkona mín, Sólveig Dóra Magnúsdóttir, svefnlæknir, er að vinna með svefnrannsóknir í Bandaríkjunum og hún tendraði enn frekar undir áhugann og kom með hugmyndina til mín, að við myndum gera þessa rannsókn hérna,“ segir Ingibjörg við Akureyri.net. 

Mæla, fræða og mæla aftur

Rannsóknin byggir á því að veita hópnum fræðslu og núvitundaríhlutun, ásamt slökun, á ákveðnum tíma. Svefngæði hópsins eru mæld fyrir og eftir fræðslutímabilið, til þess að athuga hvort að breyting hafi orðið. Fræðslan er marghliða, en auk þess að fræða um svefn almennt þá er rætt um ýmislegt sem getur haft áhrif á gæði svefnsins. Til þess að mæla svefngæðin, sefur þáttakandi rannsóknarinnar með sérstakan hring á fingri. Hringurinn mælir púls og súrefnismettun og sendir upplýsingarnar rakleiðis inn í app sem kemur upplýsingunum til svefnlæknisins. „Þau sváfu með hringinn í 6-7 nætur, þannig að við náum bæði virkum dögum og helgum inn í rannsóknina,“ segir Ingibjörg.

Marghliða fræðsla

Ingibjörg sér um að veita krökkunum fræðslu á milli mælinga. „Núna er íhlutunin í gangi. Allir taka þátt í henni, ekki bara þau sem taka þátt í rannsókninni,“ segir Ingibjörg. „Við fjöllum um svefn, mikilvægi svefns og svefnrútínu. Áhersla er á þau atriði sem hafa áhrif á svefninn, til dæmis hreyfing, andleg líðan og skjánotkun. Auk þess fá þau djúpslökun í hverri viku, svona jóga nidra,“ segir Ingibjörg.

 

„Er eðlilegt að við séum að verja 5-6 klukkustundum á dag í símanum? Það þykir eðlilegt í þeirra hópi.“

Eru krakkar þreyttari í dag?

 

Áhuginn mikill

Ingibjörg upplifir áhugann vera mikinn hjá krökkunum um svefninn. „Þau eru spennt að sjá niðurstöðurnar sínar, sem mér finnst jákvætt og miðað við hvað þáttakan er góð, myndi ég segja að áhuginn væri til staðar,“ segir hún. „Það er líka mikil ánægja með slökunartímana. Fræðslan er minna spennandi, en þetta eru líka 16 ára krakkar,“ segir Ingibjörg og hlær. Hún hefur áralanga reynslu af því að kenna ungu fólki og þekkir sitt heimafólk.

Hér má sjá dæmi um línurit yfir einnar nætur svefn. Dökkblátt táknar djúpsvefn, ljósblátt lausan svefn og appelsínugult er REM svefn.

Hvað er góður svefn?

Ingibjörg sýnir línurit úr rannsókninni, þar sem hringurinn hefur mælt svefngæði einnar nætur. „Hér er hægt að sjá einkunn fyrir nóttina, hvar maður stendur miðað við meðaltalið. Það sem skiptir mestu máli er hvað maður nær miklum djúpsvefni og hvað svefninn er langur, en það er náttúrulega svefnlæknirinn sem fer yfir þetta og veit hvernig á að lesa úr þessu öllu,“ segir Ingibjörg. Snjallúr nútímans eru að mæla svefn fólks og sýna svipuð línurit í þar til gerðum öppum, en Ingibjörg segir að mælingarnar úr hringnum séu nákvæmari vegna þess að hann mælir líka súrefnismettun. „Ég hef borið saman mælingar af sömu nótt hjá mér, annars vegar úr hringnum og hins vegar úrinu mínu, og það er mjög ólíkt,” segir Ingibjörg.

„Það sem poppar fyrst upp í hugann er síminn og samfélagsmiðlar,“ segir Ingibjörg þegar hún er spurð að því hvort hún upplifi krakka í dag sem þreyttari en áður. „Þetta er ofboðslega truflandi. Eins og það er margt gott við þetta, þá er þetta að trufla þau og okkur öll. Er eðlilegt að við séum að verja 5-6 klukkustundum á dag í símanum? Það þykir eðlilegt í þeirra hópi.“ Ingibjörg segir að það séu ekki bara geislarnir og bláminn frá skjánum heldur skipti það líka máli hvað þú ert að horfa á. „Taugakerfið tekur þetta inn og vekur upp adrenalín og fleira. Þetta er einmitt ein umræðan sem er tekin með þeim. Ég reyni að hemja mig að hafa það ekki of langt, svo maður sé ekki þessi óþolandi miðaldra nöldrari,“ segir Ingibjörg og hlær.

 

„Niðurstöðurnar voru þær að krakkarnir eru ekki að sofa nóg. Þau eru að sofa langt innan við 8 tímana“

 

Rannsakað í annað skipti

Síðastliðið vor var sambærileg rannsókn gerð í fyrsta skipti, þar sem öllum nemendum skólans var boðið að taka þátt. „Niðurstöðurnar voru þær að krakkarnir eru ekki að sofa nóg. Þau eru að sofa langt innan við 8 tímana. Fólk á þessum aldri er náttúrulega í félagslífi og vill ekki endilega fara snemma að sofa, en það var mjög greinilegt hvað þau sneru sólarhringnum við um helgar.“ Ingibjörg segir að mikilvægi rútínunnar í svefninum sé lykilatriði, það sé erfitt fyrir líkamann að aðlaga sig miklum breytingum í því hvenær svefninn á sér stað.

Heilsa og lífsstíll í skólanum

„Íhlutunin hafði áhrif í vor. Hluti rannsakenda bætti svefnvenjurnar sínar. Við sýndum fram á að það skipti máli að fræða.“ Ingibjörg hefur orð á því að hún vilji alls ekki bara rannsaka rannsóknarinnar vegna, heldur bregðast við niðurstöðum og nýta þær til góðra verka. „Við erum núna í fyrsta bekk með fjóra tíma sem heita ‘heilsa og lífsstíll’, sem er í raun það sem var alltaf kallað íþróttir eða leikfimi. Tvöfaldur tími er einu sinni í viku, eins og áður var, þar sem farið er í leiki og íþróttir. Síðan erum við með einn tíma þar sem er íhlutun; fræðsla og slökun. Einn tími fer svo í að ganga, þá göngum við öll saman einu sinni í viku og þetta hefur ofboðslega jákvæð áhrif, bæði félagslega og líkamlega,“ segir Ingibjörg.

 

„Ég sé hins vegar eina þróun sem veldur mér áhyggjum, en það eru rosalega margir sem æfa ofboðslega mikið og einhæft. Og það eru fleiri sem gera ekki neitt“

 

Bilið að breikka

„Ég reikna alltaf með því að ungt fólk sé meðvitað um heilsu,“ segir Ingibjörg, þegar blaðamaður spyr hvort að hún sjái breytingar á heilsu ungmenna. „Ég sé hins vegar eina þróun sem veldur mér áhyggjum, en það eru rosalega margir sem æfa ofboðslega mikið og einhæft. Og það eru fleiri sem gera ekki neitt. Það eru færri orðnir inn í þessari normalkúrfu sem hreyfa sig hæfilega,“ segir Ingibjörg. „Þetta er mín tilfinning. Ungt fólk sem hreyfir sig mikið er ekki endilega að æfa íþrótt, sumir eru einfaldlega mjög mikið í ræktinni.” Ingibjörg segir að annar bekkur í skólanum eyði hálfri önninni í íþróttatímum í World Class, þar sem leitast er við að kenna öllum á líkamsræktina, taka af skarið að fara að hreyfa sig meira og Ingibjörg segir að það hafi gefið góða raun.

Svefnrannsókn MA-inga á alþjóðlegri ráðstefnu

Rannsóknin er einstök á Íslandi, en Sólveig Dóra svefnlæknir er einnig með svefnrannsókn í gangi á Sjúkrahúsinu á Akureyri fyrir börn á aldrinum 4-10 ára. „Það á að kynna niðurstöður þeirrar rannsóknar á alþjóðlegri svefnráðstefnu í Ríó de Janeiro í Brasílíu í október, og ég fæ bara að fljóta með og kynna þetta verkefni líka,“ segir Ingibjörg. „Ég mun fjalla um íhlutunina og kynna grófar niðurstöður,“ en ráðstefnan er haldin 20. - 25. október.