Fara í efni
Fréttir

Sundlaugum lokað vegna verkfalls

Akureyrarlaug og Glerárlaug verða lokaðar yfir hvítasunnuhelgina ef ekki tekst að semja í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sundlaugar Akureyrar verða lokaðar yfir hvítasunnuhelgina vegna verkfalls sundlaugarvarða og vaktstjóra ef ekki nást samningar fyrir helgi.

Félagsmenn í BSRB samþykktu aðgerðir í fjölmörgum sveitarfélögum í maí og júní, en verkfallið núna um helgina er það fyrsta sem hefur bein áhrif á Akureyri. Núna um helgina verða 22 starfsmenn Akureyrarbæjar, sem eiga eina eða fleiri vakt hver, í verkfalli, eða frá 14 upp í 17 manns hvern dag.

Fram undan gætu svo verið frekari verkföll í íþróttamiðstöðvum, en samtals ná boðuð verkföll í maí og júní til ríflega 100 starfsmanna Akureyrarbæjar. Alls ná boðuð verkföll BSRB í maí og júní til 1.500 starfsmanna í tíu sveitarfélögum. Frá og með 5. júní eru víðtækari verkföll á aðgerðaáætlun aðildarfélaga BSRB sem ná til starfsfólks á leikskólum, í höfnum, bæjarskrifstofum, áhaldahúsum/þjónustumiðstöðvum, sundlaugum/íþróttamannvirkjum, við almenningssamgöngur og í vinnuskólum.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri vildi ekki tjá sig um stöðu mála í viðræðunum þegar Akureyri.net leitaði eftir því í morgun heldur vísaði á Samband íslenskra sveitarfélaga sem hefur samningsumboðið fyrir Akureyrarbæ og fleiri sveitarfélög.