Fara í efni
Fréttir

Sumarflug til Tenerife frá Akureyri

Sól og strandlíf er það sem laðar margan Íslendinginn til Tenerife. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

Ferðaskrifstofan Heimsferðir ætlar að bjóða upp á tvö flug til Tenerife frá Akureyri í sumar. Ef vel gengur er ekki útilokað að þau verði fleiri.

„Við höfum áður boðið upp á beint flug til Tenerife frá Akureyri en ekki að sumarlagi, svo það er nýjung,“ segir Trausti Hafsteinsson, sölustjóri Heimsferða. Aðspurður hvort nýlegar fréttir af flugfélaginu Niceair, sem gert hefur hlé á starfsemi sinni, hafi haft eitthvað með þessa ákvörðun að gera segir Trausti það ekki beint vera þannig. Heimsferðir hafa reglulega boðið upp á ferðir í beinu flugi frá Akureyri svo það er kannski full djúpt í árina tekið að segja að fyritækið sé að grípa boltann frá Niceair. „Í gegnum árin höfum við lagt okkur fram um að sinna þessari flugleið af alúð, bæði með framboði á borgar- og sólarferðum beint frá Akureyri, og við viljum gjarnan halda því áfram. Ef við sjáum tækifæri til þess að auka framboðið í beinu flugi frá Akureyri þá mun við hiklaust gera það, engin spurning,“ segir Trausti.

Íslendingar hafa verið mjög hrifnir af spænsku eyjunni Tenerife og eru Norðlendingar þar engin undantekning. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

Ein sólarferð í október

Eins og ferðavefurinn Túristi hefur greint frá flugu 852 farþegar frá Akureyri til Tenerife í janúar og febrúar þegar Niceair hélt úti áætlunarferðum frá Akureyri svo áhuginn á flugleiðinni er sannarlega fyrir hendi. „Við höfum þegar fundið fyrir góðum viðbrögðum við Tenerife ferðunum sem við munum bjóða upp á í sumar,“ segir Trausti en fyrri sumarferð Heimsferða til Tenerife frá Akureyri verður farin þann 20. júní, með heimkomu 29. júní. Seinni ferðin verður farin þann 10. júlí með heimkomu 20. júlí. 189 sæti eru í boði í hvorri ferð og verður bæði í boði að kaupa stök flugsæti sem og pakka. Þá munu Heimsferðir einnig vera með ferð frá Akureyri til Tenerife í október. „Í haust verðum við líka með beint flug frá Akureyri til Ljubljana, hinnar dásamlegu höfuðborgar Slóveníu. Þá vorum við að setja inn yndislega ferð til Sevilla, í beinu flugi frá Egilsstöðum í haust,“ segir Trausti.