Fara í efni
Fréttir

Styttist í fjölgun hótelherbergja

Lengi hefur staðið til að Sjallinn verði rifinn og þar byggt hótel. Forstjóri Íslandshótela segir að…
Lengi hefur staðið til að Sjallinn verði rifinn og þar byggt hótel. Forstjóri Íslandshótela segir að verið sé að endurhanna hótelið og stefnt á að hefja framkvæmdir snemma á næsta ári. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Íslandshótel stefna að því að framkvæmdir við nýtt hótel á Sjallareitnum hefjist á næsta ári. Þá er Hótel Akureyri að bæta við um 40 herbergjum í nýrri viðbyggingu og búið er að samþykkja stækkun á Icelandair hótelinu. Eins er íbúðahótel í byggingu við Hafnarstræti.

Mikið hefur verið rætt um skort á gistirými á Akureyri undanfarið en fólk í ferðabransanum hefur sagt að þörf sé fyrir nýtt 200-300 herbergja hótel í bænum ekki seinna en strax. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, sagði í samtali við Túrista.is að það væri ofboðslegur þrýstingur frá erlendum ferðaskrifstofum að byggt verði nýtt 200 til 250 herbergja hótel á Akureyri og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, sagði við sama miðil að það þyrfti bráðaaðgerð í hótelmálum á Akureyri: Byggja þyrfti nýtt 200 herbergja þriggja stjörnu hótel og eitt 100 herbergja fjögurra stjörnu hótel.

Hótel Akureyri stækkar

Nú þegar er hins vegar uppbygging í gangi á tveimur stöðum á Akureyri sem auka mun gistirými í bænum. Annars vegar við Hafnarstræti 67-69 en þar stendur til að rísi fjögurra hæða viðbygging við Hótel Akureyri. Stækkunin var samþykkt árið 2018 og verkefnið full teiknað og fjármagnað þá. Áformin lögðust hins vegar í dvala með óvissunni sem fylgdi í kjölfar falls Wow Air og heimsfaraldursins.

Jarðvegsvinna hefur staðið yfir á lóðinni við hlið Hótel Akureyrar í Skjaldborgarhúsinu. Þar mun rísa viðbygging við hótelið á fjórum hæðum.

Að sögn Daníels Smárasonar, framkvæmdastjóra hótelsins, er nú verið að dusta rykið af teikningunum á nýjan leik, enda landslagið gjörbreytt. Jarðvegsvinna hefur staðið yfir á reitnum og stefnt að því að framkvæmdir við bygginguna hefjist sem fyrst, en um 40 herbergi bætast þá við hótelið. Daníel vill þó ekki gefa neina dagsetningu varðandi það hvenær húsnæðið verði klárt, þetta sé allt í vinnslu en reiknað er með ári í byggingarframkvæmdirnar. Þá segir hann að hugsanlega þurfi eitthvað að hnika teikningum til því eftir covid séu nú gerðar auknar kröfur um snertilausar lausnir og þjónustu. Hótel Akureyri á sér líka fleiri vaxtarmöguleika því búið er að samþykkja stækkun á Dynheimum um eina hæð, sem og uppbyggingu á lóðinni við hliðina á Dynheimum, þar sem Urban farm er nú til húsa.

Íbúðahótel við Hafnarstræti og hótel á Sjallareitnum

Beint á móti Hótel Akureyri, við Austurbrú 10-12 og Hafnarstræti 80-82, er J.E Skanni að byggja húsnæði fyrir Luxor ehf., en hluti af því verður íbúðahótel með 16-20 íbúðum. Á þessu svæði hafði KEA ætlað sér að byggja 150 herbergja hótel en ekkert varð úr þeim áformum og var því lóðin látin annað. Þá er langt síðan samþykkt var að Sjallinn yrði rifinn og að þar yrði byggt hótel á vegum Íslandshótela. Þau áform hafa ekki farið lengra fram til þessa, en samkvæmt upplýsingum frá Davíð Torfa Ólafssyni forstjóra Íslandshótela fer nú að styttast í að eitthvað gerist þar. „Við hjá Íslandshótelum hlökkum mikið til að opna nýtt Fosshótel á Sjallareitnum. Við erum að endurskoða hönnunina og svo er unnið að verkfræðihönnun. Þetta getur orðið allt að 130 - 140 herbergja hótel. Stefnt er á að hefja framkvæmdir fljótlega á næsta ári,” segir Davíð.

Hótel á golfvellinum?

Samkvæmt upplýsingum frá Pétri Inga Haraldssyni, skipulagsfulltrúa Akureyrarbæjar, hefur bærinn ekki auglýst neinar hótellóðir nýlega. Að hans sögn hefur heldur enginn aðili haft formlega samband við skipulagsyfirvöld í leit að hótellóð, þrátt fyrir fréttir af skorti á gistirými í bænum. Nú þegar eru nokkrar atvinnulóðir auglýstar á heimasíðu Akureyrarbæjar en þær henta ekki endilega undir hótel. Að sögn Péturs stóð alltaf til að hótel myndi rísa við golfvöllinn en hann segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um að auglýsa þá lóð, en það þurfi að gerast í samvinnu við golfvöllinn. Þá gæti svæðið við Skipagötu frá BSO einnig mögulega hentað undir hótel en það svæði hefur ekki enn verið auglýst.

Hótel Akureyri er með hótelrekstur í tveimur húsum við Hafnarstræti, í Skjaldborg (sem er á næstu mynd fyrir ofan) og Dynheimum, til vinstri á þessari mynd. Í framtíðinni verður líklega byggð hæð ofan á Dynheima.

Hluti af húsnæðinu sem er í byggingu á þessum reit, við Austurbrú, verður íbúðahótel.

Lengi hefur staðið til að Sjallinn verði rifinn og þar byggt hótel. Forstjóri Íslandshótela segir að verið sé að endurhanna hótelið og stefnt á að hefja framkvæmdir snemma á næsta ári.