Fara í efni
Fréttir

Styrkja Akureyri sem höfuðstað norðurslóða

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður, á Akureyri.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ákveðið að hækka árleg fjárframlög ráðuneytisins til tveggja skrifstofa Norðurskautsráðsins sem hafa aðsetur á Akureyri um 50%. Þetta eru CAFF, skrifstofa vinnuhóps um vernd lífríkis og PAME, vinnuhóps um verndun hafsvæða. 

„Málefni norðurslóða snerta hagsmuni Íslands með margvíslegum hætti. Við eigum að vera leiðandi afl á norðurskautinu og reyna eftir fremsta megni að verja hagsmuni okkar og ganga fram með góðu fordæmi, sér í lagi í umhverfismálum. CAFF og PAME vinna mikilvægt vísinda- og ráðgefandi starf fyrir Norðurskautsráðið í málefnum hafsins og þar sem við hýsum þessar skrifstofur er mikilvægt að þær fái það fjármagn sem þörf er á til þess að starfsemin geti verið í fremstu röð“, segir Guðlaugur Þór. Ákvörðunin um aukin fjárframlög mun styrkja Akureyri sem höfuðstað norðurslóða og stuðla að því að Ísland verði áfram leiðandi afl í Norðurskautsráðinu, segir ráðherra.

CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna – vinnu­hóp­ur um líf­rík­is­vernd) og PAME (Protection of the Arctic Marine Environment – vinnuhópur um verndun hafsvæða) mynda stærsta setur vísinda og stefnumótandi ráðgjafar innan Norðurskautsráðsins utan Noregs og hafa hátt í hundrað verkefni á sinni könnu. Flest þeirra lúta að stefnumótun í málefnum hafsins og líffræðilegum fjölbreytileika þar sem hagsmunir Íslands eru ríkir í þeim efnum.

Rekstur beggja skrifstofa er fjármagnaður af aðildarlöndum Norðurskautsráðsins til jafns við Ísland en umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið sér um fjármögnun fyrir Íslands hönd. Fjárframlög til CAFF og PAME hafa lengi staðið í stað en í aðdraganda formennskutíðar Íslands í Norðurskautsráðinu jukust framlögin m.a. vegna framlaga frá utanríkisráðuneytinu.

Árið 2021 lækkuðu fjárframlögin niður í það sem þau voru áður en utanríkisráðuneytið bætti það upp árið 2021. Guðlaugur Þór segir að þörf hafi verið á að koma fjármálum CAFF og PAME í fyrra horf, í samræmi við reglur og viðmið Norðurskautsráðsins um fjármögnun þess og skrifstofa þeirra. Það hafi nú verið gert með þessari 50% aukningu fjárframlaga.

Málefni Norðurslóða hafa á undanförnum árum fengið mikið pólitískt vægi og eru nú veigamikill þáttur í utanríkisstefnu Íslands. Tveggja ára formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu er nýlokið en Guðlaugur Þór, sem þá var utanríkisráðherra fór með formennsku í ráðinu.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður á tímum heimsfaraldurs tókst vel til í formennskutíð Íslands í Norðurskautsráðinu, að sögn ráðherra. Þátttaka í ráðinu hafi lengi verið forgangsmál stjórnvalda og kveðst hann hafa lagt sérstaka áherslu á málefni Norðurslóða í starfi sínu sem utanríkisráðherra og á leiðandi hlutverk Íslands sem formennskuríkis enda gafst þar gott tækifæri til þess að láta til sín taka á alþjóðlegum vettvangi, að hans sögn.