Fara í efni
Fréttir

Styður ekki frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Lög­reglu­stjór­inn á Norður­landi eystra seg­ist ekki geta stutt frum­varp Svandís­ar Svavars­dótt­ur, heil­brigðisráðherra, um af­glæpa­væðingu neyslu­skammta ávana- og fíkniefna.

Tilefni frumvarpsins er sú stefnumörkun stjórnvalda að meðhöndla eigi vanda vímuefnanotenda í íslensku samfélagi í heilbrigðiskerfinu fremur en dómskerfinu.

Í áliti sem Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri, sendi nefndasviði Alþingis og birt er á vef þingsins, lýsir hún þeirri skoðun að frumvarpið gangi lengra en yfirlýst markmið, auk þess sem und­ir­bún­ing­ur fyr­ir stefnu­breyt­ingu sem þessa hafi ekki verið næg­ur. Þá hafi forvarnarstarf ekki verið aukið eða fjölgun meðferðarúrræða tryggð. „Vand­séð er hvernig verja eigi börn og ung­menni á sama tíma og af­glæpa­væða eigi neyslu­skammta,“ seg­ir í áliti embættisins.

Ekkert aðhald

Embættið bendir meðal annars á eftirfarandi atriði

 • Ungt fólk sem neytir fíkniefna lítur alls ekki á sig sem sjúklinga sem þurfi að aðstoða. Fyrir þeim verður varsla efna gerð lögleg verði frumvarpið að lögum og aðgengi þeirra aukið frekar.
 • Ef til vill leitar það fólk til heilbrigðiskerfisins síðar á lífsleiðinni þegar afleiðingar neyslunnar eru komnar fram og þá er vandinn jafnvel stærri en hann var í byrjun.
 • Aðhald með neyslu fíkniefna verður ekkert verði frumvarpið að lögum. Það getur haft alvarlegar afleiðingar á heilsu fólks. Líta verður til þess að stór hluti neytenda eru svokallaðir frístundaneytendur sem telja sig ekki aðstoðar þurfi.
 • Ekki er hægt að bera stöðuna á Íslandi saman við stöðuna í Portúgal. Líkt og fram kemur í frumvarpinu geisaði þar HIV faraldur meðal fólks sem sprautaði sig með fíkniefnum og dauðsföllum fjölgaði mikið. 
 • Embættinu þykir of langt gengið með frumvarpinu þar sem það tekur til allra tegunda fíkniefna en ekki einstakra efna. Sums staðar hafi varsla kannabis verið heimiluð og kannski væri það eðlilegra skref að stíga við slíka stefnubreytingu og meta afleiðingar þess í stað þess að varsla neysluskamma allra efna – kókaíns, amfetamíns, MDMA, heróíns, metamfetamíns, krakks og fleiri – verði gerð refsilaus á einu bretti. Embættið varar við þessu.
 • Frumvarpið gerir ráð fyrir því að heimilt sé að kaupa og varsla lyfseðilskyld lyf teljist þau til eigin nota.  Slík lyf megi því, skv. frumvarpinu, ganga kaupum og sölum fari magnið ekki yfir það sem áætlað er til einkanota. Þetta þykir varhugavert enda ekki ástæða til að bæta á þann vanda sem notkun á lyfseðilskyldum lyfjum er.
 • Í dag er því almennt haldið fram að auðveldara sé að nálgast fíkniefni heldur en áfengi. Fíkniefnaneysla er enn að aukast og mikið er orðið um íslenska framleiðslu og þá hefur styrkleiki efna einnig aukist.
 • Áfengiskaupaaldur er 20 ára og óheimilt er að afhenda börnum og fólki undir 20 ára áfengi. Með frumvarpinu er lagt til að aldurstakmarkið við refsileysi neysluskammta verði 18 ár. Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við það. 
 • Þegar lögregla verður vör við neyslu og vörslu fíkniefna á heimilum barna er tilkynnt um það til barnaverndar. Ef varsla á neysluskömmtum verður gerð refsilaus munu þessi mál jafnvel ekki koma inn á borð lögreglu sem verður til þess að barnavernd fær ekki upplýsingar og getur ekki aðstoðað börnin og foreldra þeirra til að sinna sínum skyldum gagnvart öruggu uppeldi barna sinna.
 • Með því að varsla og kaup verði heimil upp að ákveðnu magni má gera ráð fyrir að aðgengi aukist að fíkniefnum, sala eykst sem getur haft þau áhrif að skipulögð glæpastarfsemi eflist enn frekar.
 • Fíkniefnasala er ein þeirra algengustu leiða sem notaðar eru til að fjármagna skipulagða glæpastarfsemi. Með auknum umsvifum í fíkniefnasölu á Íslandi má þess vegna gera ráð fyrir að fjármögnun skipulagðrar brotastarfsemi verði auðveldari.
 • Reykingar eru bannaðar á veitingastöðum og skemmtistöðum en ekki stendur til að banna fíkniefnaneyslu á þessum stöðum. Menn geta því óáreittir neytt fíkniefna fyrir allra augum verði frumvarpið að lögum.
 • Verkefni lögreglu verða áfram ærin þrátt fyrir að frumvarpið verði að lögum en eins og tölur sýna þá hefur akstur undir áhrifum fíkniefna aukist töluvert á meðan dregið hefur úr akstri undir áhrifum áfengis.
 • Með aukinni neyslu má búast við að akstur undir áhrifum fíkniefna muni aukast enn frekar með tilheyrandi hættu fyrir vegfarendur. Það er því tómt mál að mati embættisins meðal annars vegna þessa að tala um sparnað í refsivörslukerfinu vegnafyrirhugaðs frumvarps.

Smelltu hér til að lesa umsögn embættis lögreglustjóra í heild