Fara í efni
Fréttir

Stuttur bíltúr og enn styttri sprettur!

Bifreið var stolið í miðbæ Akureyrar í morgun en var endurheimt eftir stuttan reynsluakstur hins fingralanga.

„Ökumaður bifreiðarinnar hafði skilið bifreiðina eftir í gangi meðan hann var að ferja inn vörur en þegar hann kom út var bifreiðin horfin,“ segir á Facebook síðu lögreglunnar.

Bifreiðin sást skömmu síðar á ferð í umferðinni og var ökumanni gefið merki um að stöðva, „sem hann gerði eftir stutta eftirför. Eftir að hafa stöðvað bifreiðina reyndi ökumaður að hlaupa undan lögreglu en var handtekinn eftir stuttan sprett og fluttur á lögreglustöð,“ segir þar ennfremur.

Ofbeldi í heimahúsi

Lögreglan greinir einnig frá því að um klukkan 11 í morgun var aðstoðar hennar óskað þar sem maður var sagður hafa ráðist á annan mann í heimahúsi. „Í ljós kom að maðurinn sem var gestkomandi var í annarlegu ástandi og ekki á rökum reyst að hann hafi ráðist á húsráðanda. Hann hafði hins vegar þýfi í fórum sínum og var því handtekinn og fluttur á lögreglustöð, þar sem hann var vistaður í fangaklefa.

Auk þessara verkefna sinnti lögreglan umferðareftirliti og var þar einn ökumaður tekinn fyrir of hraðan akstur.“