Fara í efni
Fréttir

Stutt berjasumar á Norðurlandi

Bláber í landi Krossanesborga virðast almennt vera smærri að stærð en í fyrra.

Berjaspretta í grennd við Akureyri er ekkert á við það sem hún var í fyrra. Þá eru berin seinna á ferð og hætt við því að berjasumarið verði stutt þar sem veðurfræðingar hafa nú þegar spáð næturfrosti.

„Mér finnst krækiberin hafa náð sér vel á strik en bláberin eru léleg í ár,“ segir Jón Heiðar Jónsson, sem er mikill útivistar- og berjaáhugamaður, aðspurður út í berjasprettuna í ár. Hann kennir blautu og köldu tíðarfari um, en krækiberin virðast hafa þolað veðurfarið betur. Jón Heiðar hefur tekið stikkprufur á nokkrum stöðum í nágrenni Akureyrar en hann tínir á hverju ári til að eiga nóg í frystinum fyrir veturinn. „Það er fullt af krækiberjum í Múlanum og þá voru fínustu krækiber á Flateyjardal,“ segir Jón Heiðar sem var tiltölulega nýkominn heim með 15 kg af berjum úr ÓIafsfjarðarmúlanum.

Minni spretta

Krossanesborgir er vinsælt berjasvæði meðal Akureyringa og voru nokkrir við tínslu þar þegar blaðamaður leit við. Berjafólk var sammála um að berjasumarið byrjaði seint og þá væri sprettan ekkert í líkingu við það sem hún var í fyrra, en síðasta sumar var einstakt á Norðurlandi svo líklega er ósanngjarnt að hafa það sem viðmið. Vissulega eru bláber í Krossanesborgum en þau eru mun smærri en í fyrra.

Krossanesborgir eru vinsælt svæði til berjatínslu. Jakobína Reynisdóttir var þar við tínslu á mánudag, en hún fer í ber á hverju ári enda fínasta hugleiðsla að vera einn með sjálfum sér við berjatínslu í náttúrunni.

„Berin eru sannarlega mun seinna á ferðinni núna en í fyrra. Ég er rétt að byrja að tína og það er kominn 22 ágúst, það er mjög seint. Ég er að keppast við að ná inn berjum fyrir mína föstu kúnna áður en það kemur næturfrost,“ segir Inga Vala Birgisdóttir sem týnir mikið á hverju ári og selur. „Ég er ekki endilega sammála því að berin séu lítil í ár, maður þarf að labba á milli þúfna til að finna stærri berin,“ segir Inga Vala en hún tínir m.a. í Hlíðarfjalli, Krossanesborgum og á einkalóðum.

Ná inn berjum fyrir næturfrost

Þeir sem ætla sér í berjamó þetta haustið ættu að hafa hraðann á því veðurfræðingar eru nú þegar farnir að tala um næturfrost og hætt við því að berjasumarið verði því með styttra móti í ár. „Ég var að tína við Tjarnargerði í Eyjafjarðarsveit og þar hefur örugglega fryst nú þegar því berin voru mjúk og viðkvæm,“ segir Inga Vala.

Jón Heiðar mælir með því að berjafólk haldi sig á berjasvæðum út við sjó ef næturfrost er í kortunum. Það frysti venjulega fyrst í innsveitunum og hans reynsla sé sú að oftast hafi sloppið betur til á svæðum eins og Flateyjardal.

Ber sem tínd voru á Flateyjardal fyrir rúmlega viku síðan.