Fara í efni
Fréttir

Strætó á 20 mín. fresti í stað 60 - sjáðu nýtt leiðakerfi

Nýtt leiðanet Strætisvagna Akureyrar verður tekið í notkun í sumar. Helstu breytingar verða þessar:

  • Strætó kemur við á hverri stoppistöð á 20 mínútuna fresti á annatíma í stað klukkutíma eins og verið hefur.
  • Leiðir verða beinni þannig að meðalferðatími styttist frá því sem nú er.
  • Leiðanetið tengist miðbæ, skólum, frístundastarfsemi og helstu atvinnukjörnum.

Ýmislegt kallaði á endurskoðun á þjónustu og leiðaneti SVA, að því er segir í lokaskýrslu verkfræðistofunnar Eflu um verkefnið. Þetta helst:

  • Fækkun farþega SVA á undanförnum árum. Leiðakerfi var síðast breytt 2016 og síðan hefur farþegum strætó fækkað. Endurskoðun á leiðaneti er ein aðgerð af mörgum til þess að fá fleiri farþega til að nýta sér strætó.
  • Stór hluti íbúa á Akureyri notar strætó aldrei eða sjaldan – þeir telja leiðanet og þjónustu henta illa. „Þrátt fyrir að gjaldfrjálst sé í strætó, kom fram í nýlegri ferðavenjukönnun meðal íbúa Akureyrar að um 10% íbúa nota strætó einu sinni eða oftar á viku og er það aðeins lægra hlutfall en að jafnaði mælist á höfuðborgarsvæðinu. Að sama skapi mælist hlutfall þeirra sem nota aldrei strætó aðeins hærra en á höfuðborgarsvæðinu, eða rúm 50%.“
  • Fyrirhuguð uppbygging á Akureyri kallar á endurskipulagningu leiðanets SVA. Tímajöfnunarstöð strætisvagna í dag er í miðbæ Akureyrar en hún mun víkja fyrir nýrri byggð sem þar mun rísa. Þá stendur enn yfir uppbygging í Hagahverfi og er áætlað að þar eigi um og yfir 2.000 manns eftir að búa eftir tvö ár. „Einnig er fyrirhuguð þétting byggðar í Holtahverfi, nýtt hverfi vestan við Síðubraut, ásamt uppbyggingu verslunar- og iðnaðarhverfis nyrst í bænum. Ekki er auðvelt að útvíkka núverandi leiðanet án þess að það kalli á enn lengri ferðatíma þeirra farþega sem ferðast með Strætó í dag.“
  • „Aukin áhersla á umhverfissjónarmið í samfélaginu. Aukin notkun almenningssamgangna og annarra vistvænna ferðamáta eru einn mikilvægasti liðurinn í því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og svifryki. Mikilvægt er að almenningssamgöngur mæti þörfum íbúa til þess að minnka notkun á einkabílnum.“
  • „Betri tengingar við frístundastarf. Í könnun meðal íbúa Akureyrar kom fram að það þyrfti að vera auðveldara fyrir börn og ungmenni að nota strætó til að stunda íþróttir og tómstundir. Þannig má draga úr bílaumferð með minna skutli foreldra.“
  • „Ungmenni kalla eftir aukinni tíðni og styttri ferðatíma. Í dag aka leiðir Strætó á klukkutíma tíðni. Í sérstöku samráði við börn og ungmenni voru megin skilaboðin að þörf væri að bæta leiðakerfi, auka tíðni og stytta ferðatíma, þrátt fyrir að það þýði að sumir íbúar þurfi að ganga lengra að næstu stoppistöð. Að auki var kallað eftir meiri stundvísi ásamt aukinni kvöld- og helgarþjónustu.“
  • Leiðanetið þykir of flókið; það samanstendur af sex hringleiðum, en erfitt getur verið að muna þær og því þarf oft að notast við bæði leiðakort og tímatöflur. Þá byrja og enda allar leiðir í miðbænum þar sem vagnar tímajafna sig sem lengir ferðatíma farþega sem eiga þar leið í gegn. Að auki keyrir aðeins ein leið seint á kvöldin og um helgar. 

Hátt í 200 ábendingar

Við endurskoðun á leiðanetinu var lögð rík áhersla á samráð við íbúa á öllum stigum verkefnisins, segir í kynningu Akureyrarbæjar. „Við mótun fyrstu tillagna var leitað eftir sjónarmiðum barna og ungmenna í sveitarfélaginu og lögð fyrir almenn könnun meðal íbúa.“

Fyrstu tillögur voru kynntar í október síðastliðnum, kynningar- og samráðsferli leiddi af sér hátt í 200 ábendingar frá íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. „Allar ábendingar voru teknar til skoðunar og reynt að koma til móts við sem flest sjónarmið eftir því sem rammi verkefnisins leyfði.“

  • Ein af stóru breytingunum sem samráðið leiddi af sér er innleiðing á sérstökum frístundaakstri fyrir nemendur í 1.-4. bekk samhliða nýja leiðanetinu, enda sneru margar ábendingar að þeim hópi. Jafnvel þótt nýja leiðanetið hafi í för með sér mun betri tengingar en áður milli skóla og frístundastarfs er talið að koma þurfi betur til móts við þarfir yngstu grunnskólabarna sem sækja íþróttir og aðrar tómstundir beint úr skóla.
  • Nokkrar mikilvægar breytingar hafa verið gerðar á leiðanetinu sjálfu í kjölfar samráðsins. Má þar nefna breytingar á leið 2, annars vegar til að þjónusta betur ákveðin svæði Síðuhverfis og hins vegar til að bæta tengingu við Hagahverfi. Þá er leið 1 við Skautahöllina framlengd á annatíma og á kvöldin sem hefur í för með sér betri þjónustu við innbæinn, Oddeyrina og Holtahverfi líkt og kallað var eftir.
  • Aðrar úrbætur og mótvægisaðgerðir fela til dæmis í sér aukna áherslu á snjómokstur á stígum sem tengjast stoppistöðvum. Einnig verður lagt mat á umferðaröryggi, til dæmis við Hlíðarbraut, lýsing bætt á nokkrum stöðum og lögð áhersla á að fjölga smám saman góðum biðskýlum við stoppistöðvar

Akstri um Giljahverfi hætt

Nokkur atriði eru nefnd í skýrslunni sem ekki voru talin möguleg – meðal annars að akstri um Giljahverfi verður hætt.

  • Ekki er talið mögulegt að halda áfram að aka Merkigil með 20 mínútna tíðni. Mótvægisaðgerðir: umferðaröryggi skoðað og aukin áhersla lögð á snjómokstur. Frístundaakstur innleiddur.
  • Ekki er talið mögulegt að halda áfram að aka Skógarlund og að Verkmenntaskólanum með 20 mínútna tíðni. Mótvægisaðgerðir: umferðaröryggi skoðað og aukin áhersla lögð á snjómokstur. Frístundaakstur innleiddur.
  • Ekki er talið mögulegt að hefja akstur að flugvelli miðað við þá fjármuni sem úr er að spila, nema draga úr ferðatíðni og þjónustu annars staðar í bænum.