Fara í efni
Fréttir

Stórverslun ELKO opnuð í fyrramálið

Úr verslun Elko við Tryggvabraut sem opnuð verður á morgun.

Stórverslun ELKO verður opnuð á Akureyri á morgun, fimmtudag, í 1.000 fermetra rými. Lengi hefur staðið til að opna verslunina en ýmsar áskoranir hafa komið upp vegna samkomutakmarkana, sakir þess að einungis 10 manns hafa mátt vera í sama rými hverju sinni. Það breytist á morgun. „Með opnuninni er ELKO að stíga stórt og mikilvægt skref í átt að því að færa þjónustuna ásamt gríðarlegu vöruúrvali nær viðskiptavinum sínum á Norðurlandi, en viðskiptavinir hafa margir hverjir beðið lengi eftir þessari opnun,“ segir Haukur Már Hergeirsson, verslunarstjóri ELKO á Akureyri, í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Verslunin verður opnuð klukkan 11.00 í fyrramálið. Hún er til húsa að Tryggvabraut 18, húsinu sem margir Akureyringar sem komnir eru yfir miðjan aldur muna eftir sem POB, Prentverki Odds Björnssonar, en síðustu ár hefur verslun N1 verið rekin þar. Gengið er inn frá Furuvöllum.

„Verslunarrýmið er hið glæsilegasta, enda innréttað og sett upp í glænýju verslunarútliti ELKO. Hugað verður að öllum sóttvörnum eins og best verður á kosið, grímuskylda í verslun og viðskiptavinir taldir inn, líkt og í öllum öðrum verslunum ELKO,“ segir Haukur.

Til að forðast langar raðir í og við verslunina verður mikil áhersla áfram lögð á vefverslunina, elko.is, og mismunandi afhendingarmáta um allt land. Boðið verður upp á fría heimsendingu á smærri vörum þegar verslað er fyrir 10.000 kr. eða meira í vefverslun ELKO alveg fram að jólum og er jólaskiptimiði á öllum vörum, sem gildir til 24. janúar, skv. upplýsingum frá versluninni. „Það er því algjör óþarfi að hópast í verslanir fyrir eða eftir jól en við hlökkum þó til að taka á móti öllum þeim viðskiptavinum sem leggja leið sína í ELKO á aðventunni og munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að stuðla að jákvæðri upplifun viðskiptavina okkar, en búast má við einhverjum röðum í núgildandi samkomutakmörkunum á háannatímum“ segir Haukur.

„Ég er ekki í vafa um að koma Elko norður yfir heiðar verður mikil lyftistöng fyrir bæinn og komi til með að hafa víðtæk áhrif,“ segir Haukur Már en tíu starfsmenn verða í fullu starfi í versluninni og má reikna með öðru eins í hlutastarfi.