Fara í efni
Fréttir

Stórskemmdi bíl við Löngumýri og stakk af

Sóley Eva Magnúsdóttir varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu í hádeginu að ekið var á bíl hennar, þar sem honum var lagt fyrir utan hús við Löngumýri á Akureyri. Bíllinn er stórskemmdur eins og sjá má á myndinni. Sjónarvottur náði ekki númerinu á hinum bílnum – sem ók á brott – en sagði það hvítan jeppa, líklega Land Cruiser.

Sóley og kærasti hennar eiga bílinn. Hún segist hafa komið heim úr skólanum um tólfleytið og lagt bílnum fyrir utan heimili sitt, Löngumýri 30. Sóley fór inn en segir varla hafa liðið nema tvær mínútur þegar vinur þeirra, sem var að moka bílaplanið, varð vitni að árekstrinum.

„Hann sá hvítan jeppa kom upp götuna á miklum hraða. Vegna þess hvernig færðin er og smá sveigja á götunni hefur hann líklega misst stjórn á bílnum og klessti á bílinn minn. Síðan keyrði hann hiklaust burt,“ segir Sóley Eva við Akureyri.net.

Lögreglan kom á vettvang og tók skýrslu. „Það væri frábært ef fólk myndi heyra í mér með upplýsingar og ég færi með þær til lögreglu og tryggingafélagsins. Þetta er mjög svekkjandi þar sem við getum ekki farið til tryggingana þar sem við vitum ekki hver tjónaraðilinn er og bíllinn er algjörlega óökuhæfur. Það er ekki einu sinni hægt að opna dyrnar bílstjóramegin.“