Fara í efni
Fréttir

Stórkostlegt að vera í návígi við gosið

Á vaktinni við gosið. Frá vinstri: Elva Dögg Pálsdóttir, Pétur Már Hjartarson og Magnús Björnsson.
Á vaktinni við gosið. Frá vinstri: Elva Dögg Pálsdóttir, Pétur Már Hjartarson og Magnús Björnsson.

„Við vorum komin í Borgarfjörð á leiðinni til baka þegar við heyrðum í útvarpinu að opnast hefði ný sprunga – misstum af því öllu saman!“ segir Magnús Björnsson, félagi í björgunarsveitinni Súlum, sem var í 12 manna hópi úr sveitinni sem stóð vaktina um síðustu helgi á gosstöðvunum í Geldingardölum.

Hópurinn fór suður á föstudaginn langa, var á vakt laugardag og páskadag og hélt heim á ný annan í páskum. „Svæðið var lokað á laugardeginum vegna veðurs svo það var þægileg vakt. Örfáir komu sem höfðu ekki séð eða heyrt upplýsingar um að svæðið væri lokað, allt útlendingar, og þeir snéru bara við þegar við lýstum ástandinu fyrir þeim,“ segir Magnús við Akureyri.net.

„Töluverður fjöldi fólks kom að gosinu á páskadag, þó ekki eins margir og dagana fyrir páska og færri en við bjuggumst við. En talsverður strekkingur var þá á svæðinu og mjög kalt.“

Akureyrski hópurinn var við gæslu á gönguleiðum að gosinu. „Við byrjuðum upp við gosið og fórum svo á móti straumnum. Hluti hópsins var þannig nálægt gosinu allan tímann, en hinir að aðstoða á gönguleiðum og loka þeim vegna mengunar.“

Allt gekk vel

„Það var stórkostleg upplifun að vera í návígi við gosið; magnað að sjá það, heyra í því og finna lyktina,“ segir Magnús. „Skemmtilegast af öllu var að við lentum ekki í neinum erfiðleikum; allt gekk vel fyrir sig, mesta vandamálið var mikil mengun á aðal gönguleiðinni og helsta verkefni okkar var að loka þeirri leið og koma fólki af mesta mengunarsvæðinu og sjá til þess að enginn færi inn á svæðið þegar búið var að tæma það.“

Töluverður fjöldi björgunarsveitarmanna var á vakt á gosstöðvunum páskahelgina, m.a. hópur frá Vopnafirði, að sögn Magnúsar.

Þorbjörg Jónsdóttir, Arnaldur Haraldsson og Níels Ómarsson úr björgunarsveitinni Súlum við gosið um síðustu helgi.