Fara í efni
Fréttir

Stóri plokkdagurinn er á morgun

Mynd úr Facebook-hópnum „Plokk á Akureyri“. Myndina tók Hrafnhildur Gunnþórsdóttir.

Út að plokka! Eða: Úr runna í ruslið! Hvað sem við köllum það er víst að verkefnin eru næg þegar kemur að plokki eins og það er kallað – eða gönguferðum/skokki með ruslatínslu sem eitt af markmiðunum. Stóri plokkdagurinn er haldinn um allt land á morgun, sunnudaginn 30. apríl. „Akureyringar eru hvattir til að hreinsa (plokka) rusl í sínu nærumhverfi enda er ýmislegt sem kemur í ljós þegar snjórinn hverfur á vorin,“ segir á vef Akureyrarbæjar þar sem bæjarbúar eru upplýstir um plokkdaginn stóra.

Plokkaragámar á grenndarstöðvum

Á vegum bæjarins hafa sérstakir gámar settir við allar grenndarstöðvar bæjarins nema við Krambúðina við Borgarbraut/Hlíðarbraut og hjá Glerártorgi. Staðsetningu grenndarstöðva má nálgast á vef Akureyrarbæjar – sjá hér.

Gámarnir verða til taks fram til þriðjudagsins 2. maí. Einnig er bent á að ef fólk hefur ekki tök á að fara með rusl á grenndarstöðvar vegna umfangs eða stærðar þess sem þarf að fjarlægja geti það haft samband í jbg@akureyri.is.

Heilsusamlegur og umhverfisvænn siður

Eins og margt annað sem manneskjan tekur sér fyrir hendur á plokk á Akureyri sér nú meðal annars samastað í Facebook-hópi með yfir 500 meðlimi. „Plokk á Akureyri“ heitir hópurinn og þar skiptist fólk á skoðunum og upplýsingum, setur inn myndir eftir gott plokk og meðal annars vísað þangað ef þátttakendur í stóra plokkdeginum vilja huga að skipulagi varðandi hvert skal halda og hvar skal plokka. Svo er líka til Facebook-hópurinn "Plokk á Íslandi.

„Landsmenn hafa tekið upp nýjan heilsusamlegan og umhverfisvænan sið sem á rætur sínar að rekja til Svíþjóðar. Að plokka snýst um að tína upp rusl á förnum vegi á meðan gengið er eða skokkað,“ segir í lýsingu á þessum hópi á Facebook. Þar segir einnig: „Það er stórkostlegt að sameina áhuga á útiveru og umhverfismeðvitund, ánægjan af því að fara út og hreyfa sig verður margfalt meiri með því að gera það með þessum hætti.“