Fara í efni
Fréttir

Stólalyftan Fjarkinn opin fjóra daga í viku

Ljósmyndir: María Helena Tryggvadóttir

Stólalyftan Fjarkinn í Hlíðarfjalli verður gangsett í dag og verður opin í sumar, á fimmtudögum og föstudögum frá kl. 17.00 til 21.00, á laugardögum kl. 10.00-17.00 og sunnudögum kl. 10.00-16.00 allt þar til 4. september.

„Í Hlíðarfjalli er góð aðstaða til útivistar bæði fyrir hjólareiða- og göngufólk. Hægt er að taka hjólið með sér í lyftuna og fyrir fótgangandi gildir lyftumiðinn fram og til baka. Lyftumiðar eru seldir í lyftuskúr við Fjarkann og á heimasíðu Hlíðarfjalls.

Hlíðarfjall og Hjólreiðafélag Akureyrar bjóða upp á sex hjólabrautir í fjallinu í sumar, „Suðurgil, Andrés, Hjalteyrin, Ævintýraleið, gamla downhill brautin og ný byrjendabraut við veginn upp að skíðagönguhúsi. Einnig eru þrjár leiðir sem allar liggja yfir í Glerárdal: Gosi, Drottning og Hrúturinn, tvær frá gönguskíðahúsinu og ein frá lyftuskúr við Fjarkann.“

Á síðunni segir: „Fyrir þá sem eru gangandi er tilvalið að stoppa við Strýtuskála og njóta útsýnis yfir Akureyrabæ og Eyjafjörð. Frá Strýtuskála er merkt gönguleið upp á brún Hlíðarfjalls. Þegar þangað er komið er til dæmis hægt að ganga að Harðarvörðu, Blátindi, Bungu, Strýtu, Kistu eða á Vindheimajökul og á góðviðrisdögum má oft sjá yfir í Mývatnssveit, Herðubreið eða vestur í Skagafjörð svo eitthvað sé nefnt.“