Fara í efni
Fréttir

Steyptist úr stólnum vegna mishæða hella

Sigrún María við brunnlokið í göngugötunni þar sem hún „flaug“ úr stólnum. Ljósmynd: Skapti Hallgrím…
Sigrún María við brunnlokið í göngugötunni þar sem hún „flaug“ úr stólnum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Fólk í hjólastól lendir oft í vandræðum í miðbænum á Akureyri vegna þess hve misháar hellurnar eru þar, ekki síst í göngugötunni. Sigrún María Óskarsdóttir lenti í því óhappi nýverið, þegar hún var í miðbænum, að fremri dekkin á hjólastól henna lentu á brunnloki og hún steyptist úr stólnum. Hellurnar í kringum lokið hafa líklega sigið.

„Maður verður hræddur þegar svona gerist. Ég brotnaði ekki en mér var hins vegar illt í bakinu í nokkra daga,“ segir Sigrún við Akureyri.net. „Það þarf svo lítið til að fólk detti úr stólnum.“

Sigrún María hvetur bæinn til þess að bæta úr og stjórn Sjálfsbjargar, félags fatlaðra á Akureyri, ályktaði í kjölfar óhappsins og átelur frágang á hellulögn. Ályktun, sem stjórnin samþykkti, og var send bæjarstjóra, er svohljóðandi: „Sjálfsbjörg félag fatlaðra á Akureyri átelur harðlega frágang á hellulögn í Hafnarstræti, þar sem mishæða hellulögn olli því nýlega, að vegfarandi í hjólastól steyptist fram fyrir sig, úr hjólastól sínum á leið um Hafnarstrætið. Stjórnin mælist til þess að bæjaryfirvöld taki málið til athugunar og lagfæri.“

Tímabært að laga

„Þetta hefur verið svona í miðbænum síðan ég man eftir mér,“ segir Sigrún María Óskarsdóttir, sem er 27 ára. „Mér finnst því kominn tími til að laga þetta. Litlu hellurnar eru verstar, þær sem eiga að setja svo fallegan svip á bæinn. Þær valda lang mestum vandræðum.“