Fara í efni
Fréttir

Stelpurnar unnu og lifa enn í voninni

Leikmenn KA/Þórs fagna innilega eftir að leiknum gegn Aftureldingu lauk undir kvöld. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór sigraði Aftureldingu örugglega, 26:18, í Olís deild kvenna í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins, í KA-heimilinu síðdegis. Stelpurnar okkar lifa því enn í voninni að halda sæti sínu í deildinni.

Gestirnir byrjuðu betur í dag, komust í 3:0, en fljótlega komust heimamenn í gang, höfðu tveggja marka forskot í hálfleik, 12:10, og munurinn jókst jafnt og þétt í seinni hálfleiknum.

Ein umferð er eftir og þá mætir KA/Þór liði Fram í Reykjavík. Liðið er enn neðst í deildinni, hefur nú 7 stig en Afturelding er með 8, og KA/Þór verður að vinna Fram og treysta á að Afturelding fái ekki stig gegn Val. Sannarlega verður við ramman reip að draga því Fram er næst efst í deildinni með 28 stig, en er ekki sagt að trúin flytji fjöll? Næsta helgi er alveg kjörin í slíkt ævintýri!

Saga Sif Gísladóttir, markvörður Aftureldingar, fór á kostum í fyrri hálfleik og varði alls 21 skot í leiknum skv. tölfræði HB Statz. Matea Lonac náði sér hins vegar engan vegin á strik í marki KA/Þórs í fyrri hálfleik en var hins vegar frábær eftir hlé. Varði alls 13 skot, sem er hljómar ekkert óvenjulegt, en skot gestaliðsins voru svo fá að þetta er 44,8% markvarsla.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni

Matea Lonac markvörður KA/Þórs náði sér ekki á strik í fyrri hálfleik en var frábær í þeim seinna. Hér fagnar Matea ásamt Mörthu Hermannsdóttir eftir að hafa varið víti í seinni hálfleiknum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Bergrós Ásta Guðmundsdóttir brýst í gegnum vörn Aftureldingar.

Katrín Vilhjálmsdóttir vippar yfir Sögu Sif og skorar annað tveggja marka sinna í dag. Aðrir leikmenn fylgjast spenntir með!

Hafðu þig hæga! Telma Lísa Elmarsdóttir, til vinstri, og Martha Hermannsdóttir hafa góðar gætur á línumanni Aftureldingar, Stefaníu Ósk Engilbertsdóttur.