Fara í efni
Fréttir

Steinar Waage, Air og Ellingsen á Glerártorg

Steinar Waage opnar verslun á Glerártorgi í næsta mánuði. Eins opna verslanirnar Ellingssen og Air í sama húsnæði. Allar þrjár verslanirnar eru í eigu S4S ehf. Myndir: af síðum S4S

Steinar Waage, Ellingsen og Air sameinast í nýrri verslun á Glerártorgi um miðjan nóvember. Þar verður fjölbreytt úrval af skóm, útivistarvörum og íþróttafatnaði í boði.

„Við erum að koma norður með alvöru skóbúð sem býður upp á breytt úrval af því besta sem við höfum,“ segir Hermann Helgason, framkvæmdastjóri verslunar- og innkaupasviðs S4S, í samtali við Akureyri.net en fyrirtækið undirbýr nú opnun þriggja verslana í einni á Glerártorgi. „Við verðum með miklu meira úrval af skóm en áður hefur sést hér fyrir norðan í tísku, útivist og sporti.“

I

Vesturendi Glerártorgs er að lifna við í næsta mánuði. Þar sem verslanirnar Goblin og Imperial var áður að finna kemur rekstur á vegum S4S efh. Mynd: SNÆ

Sameiginleg afgreiðsla og starfsfólk

Verslanirnar Ellingsen og Air eru Akureyringum að góðu kunnar en þær eru til húsa við Hvannavelli en flytjast brátt á Glerártorg, undir sama þak og Steinar Waage. Allar þrjár verslanirnar verða þannig í samtals þremur verslunarbilum í verslunarmiðstöðinni með sameiginlega afgreiðslu og starfsfólk.

Þessa dagana stendur yfir vinna á húsnæðinu sem S4S hefur tryggt sér í vesturhluta Glerártorgs, en áður voru þar verslanirnar Goblin og Imperial til húsa. Hermann segir að þar sem það hafi gefist vel að reka Air og Ellingsen í sama húsnæði hafi verið ákveðið að hafa sama fyrirkomulag á í nýju versluninni á Glerártorgi. Segir hann að enginn missi vinnuna við þessar breytingar, starfsfólkið á Hvannavöllum flytji einfaldlega yfir á Glerártorg. „Við erum að leggja í stóra fjárfestingu og höfum trú á því að með þessu góða starfsfólki sem við höfum nú þegar fyrir norðan og öflugum vörumerkjum geti þetta orðið frábær viðbót við verslunarlífið á Akureyri,“ segir Hermann.


Verslanirnar Ellingsen og Air eru til húsa við Hvannavelli en flytjast fljótlega á Glerártorg.  Mynd: SNÆ 

Mikið úrval af skóm

Margir Norðlendingar þekkja vel Steinar Waage enda meðal elstu og þekktustu skófyrirtækja landsins, með vörumerki á borð við Ecco, Skechers, Lloyd, Tamaris, Gabor og Rieker. „Þá verður líka mikið úrval af útivistar-, íþrótta- og barnaskóm í boði í gegnum Ellingsen og Air, það verður eitthvað fyrir alla,“ segir Hermann.  Aðspurður um skótísku vetrarins segir hann að strigaskótískan haldi enn velli, en nú sé þó áherslan að færast í átt að leðri og stígvélum.

„Við sjáum miklu meira af leðurskóm og stígvélum, sérstaklega fyrir konur, en auðvitað eru strigaskór og ökklaskór alltaf vinsælir á Íslandi,“ segir hann. Eins og áður segir er stefnt að opnun á Glerártorgi upp úr miðjum nóvember. „Við náum jólaskónum norður,“ lofar Hermann spenntur fyrir opnuninni á Glerártorgi.