Fara í efni
Fréttir

Stefnir að 100 störfum við lyfjaþróun

Hákon Hákonarson, læknir í Bandaríkjunum, sem stefnir að umfangsmikilli lyfjaþróun og framleiðslu á …
Hákon Hákonarson, læknir í Bandaríkjunum, sem stefnir að umfangsmikilli lyfjaþróun og framleiðslu á Akureyri.

Akureyringurinn Hákon Hákonarson, læknir í Bandaríkjunum, stefnir að því að koma á fót umfangsmikilli lyfjaþróun og framleiðslu á Akureyri á næstu misserum. Fyrirtæki hans vinnur nú að þróun fimm lyfja.

Hákon stofnaði fyrir nokkrum árum fyrirtækið Arctic Therapeutics á Akureyri. Þar eru fáeinir starfsmenn við rannsóknir en það eru aðeins fyrstu skrefin. „Ég stefni að því að byggja upp lyfjaþróunaratvinnuveg á Akureyri; markmiðið er að starfsmenn verði um 100 eftir tvö til þrjú ár. Við erum að leita að fjárfestum, áhugi virðist fyrir hendi og ég er nokkuð viss um að okkur tekst að ná því fjármagni sem við þurfum,“ sagði Hákon í samtali við Akureyri.net á dögunum.

Frábær aðstaða á Akureyri

Hákon er sérfræðingur í lungna- og genarannsóknum á barnaháskólasjúkrahúsinu í Fíladelfíu, sem hann segir annan tveggja bestu barnaspítala heims ásamt þeim í Boston. Hákon var þar í námi 1992 til 1995, kom heim 1998 og vann hjá Íslenskri erfðagreiningu til 2006, en flutti þá aftur vestur um haf.

„Aðstæðan á Akureyri er frábær. Háskólinn á Akureyri menntar meðal annars líffræðinga sem margir flytja í burtu að loknu námi vegna þess að ekki er vinna fyrir þá í bænum, en fyrirtækið gæti verið líflína fyrir þetta fólk. Bæði væri gott fyrir það að geta tekið þátt í rannsóknum og lyfjaþróun í námi sem myndi gagnast þeim, og svo væri möguleiki á vinnu í framhaldinu.“

Var dauðadómur

Fyrsta lyfið sem Hákon og hans fólk þróar er við arfgengri íslenskri heilablæðingu, sem er þekkt í nokkrum fjölskyldum. Hann hóf rannsóknir vegna veikinda ungrar konu á Flateyri, Katrínar Bjarkar Guðjónsdóttur. „Katrín, sem er systurdóttir konunnar minnar, fékk heiftarlega lömun um tvítugt eftir heilablæðingu vegna stökkbreytingar úr föðurætt,“ segir Hákon.

Í ljós kom eftir mikla leit að gamalt lyf gæti komið í veg fyrir frekari heilablæðingu, sem er einmitt raunin í tilfelli Katrínar Bjarkar. „Það var dauðadómur að greinast með þessa stökkbreytingu, fólk fær endurteknar blæðingar sem enda með dauðsfalli og meðal líftími eftir fyrstu blæðingu er yfirleitt mjög stuttur. En við rákumst á lyf sem fundið var upp fyrir 40 til 50 árum við allt öðrum sjúkdómi og enginn maður getur sett í samhengi við blæðingu sem þessa,“ segir Hákon. Eftir tveggja ára rannsókn kom virknin í ljós „og nú er markmiðið að þróa enn betra lyf,“ segir hann.

Lyfið gæti nýst víða

Blæðingin er séríslenskur sjúkdómur en Hákon segir sambærilega sjúkdóma annars staðar. „Við reiknum með að lyfið gæti nýst í Hollandi, Finnlandi, Spáni, Kanada, Bandaríkjunum, Kólumbíu og Brasilíu.“

Hann segir lyfið sem nú er í þróun það fyrsta og eina sem prófað hafi verið við sjúkdómnum. „Það yrði frábært ef við gætum komið því formlega á markað heima þannig að fólk geti keypt það.“ Útfelling prótíns, sem sem safnast fyrir í æðum og heila og veldur sjúkdómnum, er lítið áberandi hjá börnum fyrr en eftir 15 til 17 ára aldur, og Hákon segir að ef meðferð byrji snemma megi jafnvel koma í veg fyrir að sjúkdómurinn láti nokkurn tíma á sér kræla.

Hann segir um 150 Íslendinga í áhættuhópi. Vitað er að sjúkdómurinn tengist ákveðnum ættum en fyrirtæki Hákons hefur ekki fengið leyfi Vísindasiðanefndar til þess að leita til fólksins, því ekki viti allir af tengingunni. Fólk hafi ekki verið áfjáð að koma í próf vegna dauðadómsins, sem hann nefndi, en Hákon vonar að viðhorfið breytist nú þegar meðferð er í sjónmáli.

Fyrirtæki Hákons vinnur að þróun fjögurra annarra lyfja um þessar mundir. Nánar um þau síðar.