Fara í efni
Fréttir

Stefna tvítug og „við góða heilsu“ – MYNDIR

Matthías Rögnvaldsson stofnandi Stefnu og Róbert Freyr Jónsson, fyrsti starfsmaður fyrirtækisins. Þeir eru enn báðir í hópi starfsmanna. Ljósmynd: Axel Darri Þórhallsson

Hugbúnaðarfyrirtækið Stefna er 20 ára um þessar mundir og var tímamótunum fagnað með móttöku fyrir helgi í höfuðstöðvum fyrirtækisins við Glerárgötu á Akureyri.

„Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki nái 20 ára aldri – enda líftími fyrirtækja sífellt að styttast. Það er því ánægjulegt að fagna þessum tímamótum þegar Stefna er að ná fullorðinsaldri – og það við góða heilsu,“ sagði Björn Gíslason, framkvæmdastjóri Stefnu, þegar hann ávarpi gesti afmælisboðsins.

„Reksturinn gengur vel, Stefna þjónustar fjölmarga viðskiptavini um allt land og er viðskiptavinahópurinn fjölbreyttur – en í honum er að finna mörg af öflugustu fyrirtækjum landsins, sveitarfélög, félagasamtök, ríkið og stofnanir þess og svo mætti lengi telja,“ sagði Björn.

„Stefna hefur ætíð haft úrvals starfsmannahóp á að skipa og er það ekki síst honum að þakka hve vel hefur gengið í gegnum tíðina. Starfsmenn Stefnu hafa aldrei verið fleiri en þeir eru nú, eða um 40 talsins.“

Matthías Rögnvaldsson, stofnandi Stefnu, starfar enn hjá fyrirtækinu, sem og fyrsti starfsmaðurinn, Róbert Freyr Jónsson. Þeir voru að sjálfsögðu báðir á  staðnum.