Fara í efni
Fréttir

Staðnám heimilað á ný í framhaldsskólum

Heimavist framhaldsskólanna á Akureyri, MA og VMA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Framhaldsskólar geta hafið staðnám á ný strax að loknu jólafríi, skv. reglugerð sem heilbrigðisráðherra gaf út í dag. Mesta breytingin varðandi skólakerfið snertir framhaldsskólana, því þar verður blöndun á milli hópa heimil. Síðustu vikur haustannar var eingöngu boðið upp á fjarnám.

Reglugerðin gildir frá áramótum og út febrúar, er byggð á minnisblaði sóttvarnalæknis en þar kemur fram að hann setji tillögurnar fram með þeim fyrirvara að ástand faraldursins verði ekki verra við upphaf nýrrar annar skólanna en það er nú. Einnig er tekið fram að breytingar kunni að verða gerðar ef þörf krefur.

Helstu reglur í leikskólum

  • Reglur um hámarksfjölda gilda ekki um börn í leikskólastarfi. Hámarksfjöldi fullorðinna í rými er 20 einstaklingar.
  • Tveggja metra lágmarksfjarlægð og grímuskylda gildir einungis fyrir fullorðna sem ekki geta uppfyllt nálægðarmörk.
  • Blöndun er leyfð milli hólfa.
  • Foreldrar, aðstandendur og aðrir utanaðkomandi skulu ekki koma inn í skólabyggingu nema brýna nauðsyn beri til og þá með andlitsgrímu.
  • Sömu reglur gilda um tónlistarskólanám nemenda á leikskólaaldri.

Helstu reglur í grunnskólum

  • Hámarksfjöldi nemenda í hverju rými er 50, á öllum aldursstigum grunnskóla.
  • Fjöldatakmörk fyrir fullorðna í hólfi er 20 manns og nálægðarmörk fullorðinna tveir metrar. Þar sem ekki er hægt að viðhafa nálægðarmörk eða fjöldatakmörk er grímuskylda fyrir fullorðna.
  • Grunnskólanemendur eru undanþegnir nálægðarmörkum og grímuskyldu.
  • Blöndun milli hópa barna innan skóla er leyfð í sundi og íþróttum. Skipulagt íþróttastarf grunnskólabarna er heimilt með eða án snertingar.
  • Starf félagsmiðstöðva fellur undir viðmið um íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf.
  • Sömu reglur gilda um tónlistarskólanám nemenda á grunnskóla aldri.

Helstu reglur á framhaldsskólastigi

  • Viðmiðunarfjöldi nemenda og starfsmanna í hverju rými er 30.
  • Sé ekki unnt að halda 2 metra fjarlægð skulu nemendur og starfsmenn nota andlitsgrímur.
  • Blöndun nemenda milli hópa er heimil í kennslu.
  • Sóttvarnaráðstafanir varða framhaldsskóla, lýðskóla, framhaldsfræðslu en einnig ungmennahús sem sinna nemendum á framhaldsskólastigi.
  • Sömu reglur gilda um tónlistarskólanám nemenda sem lokið hafa grunnskóla.

Helstu reglur á háskólastigi

  • Hámarksfjöldi í hverju rými verði 50 manns og 2 metra nálægðarregla í gildi.
  • Skylt verður að nota grímu ef ekki er hægt að viðhafa tveggja metra nálægðarmörk eða ef loftræsting er ekki góð.