Fara í efni
Fréttir

SS Byggir – Upp og niður í 45 ár!

Sigurður Sigurðsson aðaleigandi SS Byggis og framkvæmdastjóri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

SS Byggir fagnar í dag 45 ára afmæli fyrirtækisins. Þó núverandi kennitala segi 1987 var fyrirtækið upphaflega stofnað sem sameignarfélag (sf.) árið 1978, en því svo breytt í einkahlutafélag og heitir í dag SS Byggir ehf., en aðaleigandi þess og framkvæmdastjóri er Sigurður Sigurðsson – SS sjálfur, eins og mætti ef til vill orða það.

Um 50 manns starfa hjá SS Byggi og TAK innréttingum, sem voru stofnaðar 1990 en hafa verið í eigu SS Byggis frá 2006, en að meðtöldum fjölda sjálfstæðra iðnaðarmanna og undirverktaka má segja að um 100 manns starfi að jafnaði hjá fyrirtækinu eða fyrir það.

SS Byggir hefur reist fjölmjörg hús á Akureyri í gegnum árin, meðal þessi tvö fjölbýlishús við Undirhlíð. 

SS Byggir er eitt af stærstu byggingarfyrirtækjum landsins og vel þekkt meðal Akureyringa og um allt land enda má telja byggingaverkefnin í hundruðum, jafnt innan bæjarmarkanna sem og víðar á Norðurlandi, alveg frá stökum einbýlishúsum upp í heilu blokkirnar, frá fjósi í Skagafirði yfir í nýbyggingar eða viðbyggingar íþróttahúsa, grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla, sjúkrahúss og verslunarmiðstöðvar, svo dæmi séu tekin. Fyrirtækið hefur verið leiðandi á ýmsum sviðum. Til dæmis reisti það fyrsta bílakjallarann á Akureyri og hóf fyrst fyrirtækja að einangra byggingar sínar að utan, byggði fyrstu fjölbýlishúsin með loftskiptikerfum og hefur verið í fararbroddi við þróun góðra hljóðlausna í fjölbýlum.

Hótel Hálönd er fyrsta sjálfsafgreiðsluhótelsins á Íslandi, 

Stendur vel, gengur vel, en ekki alltaf þannig

Byggingaiðnaðurinn hefur gengið í gegnum ýmislegt, stundum er góðæri, stundum ekki. Sigurður Sigurðsson framkvæmdastjóri segir fyrirtækið standa vel og ganga vel í dag, en það hafi alls ekki verið alltaf þannig á þessum 45 árum. Reksturinn hafi gengið upp og niður.

Stundum hefur fyrirtækið verið umdeilt, eða öllu heldur verkefnin sem það tekur sér fyrir hendur og má nefna sem dæmi um slíkt þær hugmyndir sem settar voru fram um uppbyggingu á syðsta hluta Oddeyrarinnar og núna síðast við Tónatröð.

Meðal áberandi verkefna SS Byggis á undanförnum árum er uppbygging frístundabyggðar í Hálöndum ofan Akureyrar, en þar er nú risin 75 hús og fyrsti áfangi fyrsta sjálfsafgreiðsluhótelsins á Íslandi, auk þess sem vinna er í gangi við skipulag á vestasta (efsta) hluta þess svæðis sem fyrirtækið keypti í upphafi undir frístundabyggðina.

  • Nánar verður fjallað um frístundabyggðina í Hálöndum og hótelbygginguna hér á Akureyri.net á næstu dögum.

Hluti Hálanda, hinnar geysivinsælu frístundabyggðar ofan Akureyrar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson