Fara í efni
Fréttir

Sprengdu snjóhengjur til að auka öryggi

Ekki fer á milli mála hvar stærsta snjóflóðið féll í Hlíðarfjalli í morgun. Mynd af vef Akureyrarbæj…
Ekki fer á milli mála hvar stærsta snjóflóðið féll í Hlíðarfjalli í morgun. Mynd af vef Akureyrarbæjar.

Starfsmenn í Hlíðarfjalli gripu til þess ráðs í morgun að nota litlar sprengjur til að setja af stað snjóflóð. Talsvert hefur snjóað síðustu daga og snjóhengjur á efstu fjallabrúnum voru ekki álitlegar.

Fjögur snjóflóð hlupu af stað og var eitt þeirra sýnu stærst eða á að giska 200 metrar á breidd. Á vef Akureyrarbæjar segir að vonast sé til að þessar aðgerðir dragi mjög úr snjóflóðahættu og auki öryggi skíðafólks til mikilla muna.

Snjóagirðingar á skíðasvæðinu hafa verið notaðar til að hefta snjó þannig að hann fjúki ekki allur í burtu jafnóðum. Það hefur gengið gríðarlega vel, að sögn Brynjars Helga Ásgeirssonar, forstöðumanns í Hlíðarfjalli og síðustu daga hefur verið unnið að því að ýta úr snjógirðingunum, jafna úr snjónum og þétta í brekkum. Með þessu móti er horft til daganna fram undan og reynt að tryggja að færið verði gott um helgina jafnvel þótt þá megi búast við hláku um tíma.

Tveir nýir snjótroðarar

Fyrir skömmu var tekinn í notkun glænýr og glæsilegur snjótroðari í Kjarnaskógi og skammt er stórra högga á milli í sveitarfélaginu því skíðasvæðið í Hlíðarfjalli fékk í morgun til umráða tvo glænýja og öfluga snjótroðara sem verða komnir á beltin og byrjaðir að troða strax á morgun.

„Það er kalt núna og gíðarlega gott færi, eiginlega stórkostlegt skíðaveður,“ segir Brynjar Helgi forstöðumaður. „Sjálfan blóðlangaði mig á skíði í morgun en verð auðvitað að sinna rekstrinum og skipuleggja næstu daga. Það gæti brugðið til beggja vona um helgina því veðurspáin gerir ráð fyrir hálfgerðum stormi aðfararnótt laugardagsins með asahláku. Þá verður unnið dag og nótt við að undirbúa laugardaginn því síðan lægir hratt og byrjar aftur að kólna. Ég geri mér því vonir um að við getum haft opið eins og venjulega á laugardaginn og sunnudagurinn lítur vel út.“

Opið er í Hlíðarfjalli til kl. 19 í dag. Á morgun, fimmtudag, er opið frá kl. 14.00 til 19.00.

Nánar hér um hvenær skíðasvæðið er opið.