Fara í efni
Fréttir

Sportver opnar nýja verslun á Glerártorgi

Hjónin Egill Einarsson og Berglind Tulinius, eigendur Sportvers. Ljósmyndir: Rakel Hinriksdóttir

Fjöldi fólks var saman kominn á Glerártorgi í hádeginu í dag þegar Sportver opnaði glænýja verslun. Egill Einarsson og Berglind Tulinius eigendur verslunarinnar voru hæstánægð með móttökurnar. „Það sem er mér efst í huga akkúrat núna er bara þakklæti,“ sagði Berglind þegar blaðamaður náði tali af þeim í augnablik á milli hamingjuóska. Egill tók í sama streng og þakkaði fyrir traustan og góðan hóp viðskiptavina og gott starfsfólk.

Rótgróin verslun

Sportver er ein af elstu búðunum í verslunarmiðstöðinni. „Sportver var náttúrlega hérna meira að segja áður en Glerártorg kom,“ rifjar Berglind upp, en verslunin er rótgróin í verslunarlífi bæjarins. „Við vorum í hópi fyrstu verslana, sem voru hérna á opnun Glerártorgs árið 2000,“ bætir Egill við.

Munu ekki sakna stigans

Nýja verslunin er í stóru rými sem áður hýsti verslun Nettó, sem hefur flutt sig í enn stærra rými í suðvesturenda Glerártorgs. Sportver er því núna við hliðina á Body shop, á móti H&M. Egill og Berglind taka sérstaklega fram að þau muni ekki sakna þess að hafa verslunina á tveimur hæðum eins og áður, en nú er allt á sömu hæðinni og töluvert rýmra.