Fara í efni
Fréttir

„Spilaði mjög vel eftir fyrsta daginn“

Sigurbrosið! Víðir Steinar Tómasson eftir að sigurinn var í höfn í gær. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Víðir Steinar Tómasson, sem varð Akureyrarmeistari í golfi í annað sinn í gær, náði sér ekki nægilega vel á strik fyrsta daginn en kveðst mjög sáttur við spilamennskuna eftir það. Í íþróttakeppni skiptir auðvitað mestu máli að hafa forystu þegar keppni lýkur, Víðir komst loks upp í fyrsta sæti á þriðju síðustu holu af 72 á mótinu, hélt sínu striki eftir það og hrósaði sigri!

Valur Snær Guðmundsson var í fyrsta sæti eftir fyrsta keppnisdag af fjórum, lék þá á pari vallarins – 71 höggi – og hafði forystu allt þar til Víðir Steinar fór fram úr honum á endasprettinum. 

„Ég átti svolítið erfitt uppdráttar fyrst daginn, spilaði þá á sjö höggum yfir pari, en mér fannst ég spila mjög vel eftir það,“ sagði Víðir Steinar við Akureyri.net eftir að hann setti niður síðasta púttið á 18. flöt Jaðarsvallar og hafði tekið á móti hamingjuóskum. 

„Ég var á einu höggi yfir pari á öðrum degi, tveimur yfir á þriðja degin og á pari í dag. Slátturinn var alltaf frábær en það voru aðallega púttin sem voru að klikka. Eftir á að hyggja finnst mér ég hafa átt að vera undir pari alla þessa þrjá daga, annan, þriðja og í dag. Ef ég næ að kveikja aðeins í púttunum er ég í toppmálum.“

Verðandi Akureyrarmeistari einbeittur á svip áður en hann pútter á annari flöt í gær. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Fyrir síðasta keppnisdag hafði Valur Snær fimm högga forskot á Víði en allt getur gerst þegar íþróttir eru annars.

„Ljóst er að keppnin verður hörð á lokadeginum á morgun og Valur Snær má ekki misstíga sig því fimm högga munur getur verið fljótur að gufa upp,“ skrifaði Valur Sæmundsson í frétt Akureyri.net eftir þriðja keppnisdaginn og hafði sannarlega lög að mæla.

Valur og Víðir léku báðir fyrstu brautina á pari, 4 höggum, Valur lék aðra braut einnig á pari, 5 höggum, en Víðir á einu undir pari. Þar með var munurinn á þeim kominn niður í fjögur högg og hann varð engu á þriðju braut. Þar gekk allt á afturfótunum hjá ríkjandi Akureyrarmeistara, hinum 19 ára Val Snæ, sem lék á 8 höggum en Víðir Steinar á 4, einu undir pari. 

„Já, það voru miklar sviptingar á þriðju braut. Valur var mjög óheppinn en mér gekk vel; ég setti niður 10 metra pútt fyrir fugli en hann þrípúttaði,“ sagði Víðir Steinar.

Valur Snær Guðmundsson, Akureyrarmeistari síðasta árs, hafði forystu frá fyrsta degi og allt þar til á 16. braut lokadaginn. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Valur Snær náði að rétta úr kútnum eftir áfallið á þriðju braut og hafði ýmist forystu eða þeir Víðir Snær voru jafnir þar til undir lokin. Þegar kom að 15. braut  var staðan jöfn en Valur Snær náði eins höggs forskoti því hann lék á pari, 5 höggum, en Víðir Steinar á 6. Á 16. braut snerist dæmið hins vegar við; Valur Snær lék á 5 höggum, einu yfir pari, en Víðir Steinar á 3, einu undir pari, og var skyndilega kominn með forystu – í fyrsta skipti á mótinu eins og áður kom fram.

„Ég náði aldrei að setja niður púttin mín fyrir fugli [einu undir pari] þar til á 16. braut en þar þrípúttaði hann og fór á einu yfir,“ sagði Víðir Steinar. Hann setti öryggið á oddinn það sem eftir var. „Á síðustu holunni var markmiðið bara að hitta inn á flöt og tvípútta en svo þurfti þess reyndar ekki. Ég þrípúttaði og það dugði.“

Hann var vitaskuld sæll og glaður með sigurinn. „Það var orðið allt of langt síðan!“ sagði meistarinn þegar rifjað var upp að fyrri Akureyrarmeistaratitilinn vann hann árið 2016. Sigurinn nú gefur honum vonandi byr undir báða vængi en meistarinn nýkrýndi einblínir næst á Íslandsmót golfklúbba, þar sem Akureyringar eru í 1. deild. Mótið fer fram hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar og hefst eftir tæpan hálfan mánuð.

Víðir Snær slær af þriðja teig í gær, á lokadegi mótsins. Þar urðu miklar sviptingar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Umfjöllun Akureyri.net um Akureyrarmótið:

Valur Snær og Lilja með forystu

Spennan eykst á Akureyrarmótinu

Lilja Maren og Valur gefa ekkert eftir

Akureyrarmótið: Úrslit ráðin í öldungaflokkum

Þriðja keppnisdegi lokið á Akureyrarmótinu

Lilja Maren og Víðir Steinar fögnuðu sigri

Lilja er þriðja kynslóð Akureyrarmeistara