Fara í efni
Fréttir

Spennandi tímar í Sambíóunum

A salurinn, sá stóri, í Sambíóunum á Akureyri eftir breytinguna.

Miklar endurbætur hafa staðið yfir í Sambíóunum á Akureyri undanfarið. Búið er að skipta út öllum sætum í báðum sölum bíósins en framkvæmdum er þó hvergi nærri lokið.

„Salirnir eru báðir hinu glæsilegustu eftir yfirhalningu, við ætlum þó ekki að láta staðar numið við sætaskiptin heldur eru framundan hjá okkur enn frekari framkvæmdir; breytingar og endurbætur á innviðum,“ segir Björn Árnason hjá Sambíóunum. „Það er von okkar að þessar breytingar muni koma til með að bæta upplifun bíógesta svo um munar.“

Björn segir að þjónustan verði einnig bætt á Akureyri. „Núna verða allar kvikmyndir sem sýndar eru í Sambíóunum á höfuðborgarsvæðinu sýndar samtímis á Akureyri,“ segir hann.

Vonandi hvatning

„Það hefur alltaf verið iðandi mann- og menningarlíf á Akureyri og við hjá Sambíóunum viljum halda áfram að vera lifandi partur af því. Eftir Covid er það okkar tilfinning að Íslendingar hafi orðið of vanir því að hanga heima og því vonum við innilega að þessar endurbætur á bíóinu verði hvatning fyrir bæjarbúa á  Akureyri að kíkja út fyrir hússins dyr og njóta alls þess sem bærinn hefur uppá að bjóða í afþreyingu, mat og menningu.“

Björn segir stórar kvikmyndir á dagskrá næstu misseri og nefnir nokkrar: Svar við bréfi Helgu, Ticket to Paradise, Abbababb, Don't Worry Darling, Woman King, Black Adam, Black Panther og Avatar 2.

„Við erum gríðarlega spennt að bjóða Akureyringa og nærsveitunga hjartanlega velkomna aftur til okkar í ferskt og endurbætt Sambíó Akureyri,“ segir Björn Árnason.

B salurinn í Sambíóunum á Akureyri eftir breytinguna.